Hvítþvottur Orkuveitunnar á menningunni innan fyrirtækisins sem rataði í fréttir er ótrúverðugur, segir Friðrik Friðriksson rekstrarráðgjafi og fjármálastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.
Friðrik hefur oft verið fenginn til að gera óháðar úttektir á fyrirtækjum og einstökum verkefnum og hann segir að það hafi ekki verið í lagi að kalla til Innri endurskoðun Borgarinnar til að rannsaka þær ávirðingar á yfirmenn sem fram komu og snúa að fyrirtækjamenningu og framkomu.
„Við blasir að það þurfti óháðan ytri aðila til að gera þá athugun. Hvernig viðkomandi deild getur fullyrt að fyrirtækjamenning Orkuveitunnar sé með því besta sem gerist hérlendis er furðuleg. Innri endurskoðun Borgarinnar hefur engar upplýsingar til að gefa slíkar einkunnir sem augljóslega miða fyrst og fremst að því að loka málinu á forsendum OR og Borgarinnar,“ segir Friðrik.
Hann segir ennfremur í færslu á fésbók að Innri endurskoðun hafi ekki sýnt sig hafa mikla burði í meginhlutverki sínu sem er að veita framkvæmdastjórn borgarinnar aðhald og sinna eftirlitsskyldu, m.a. með framkvæmdum.