Icelandic Glacial™, lindarvatnið úr Ölfusinu, hefur tryggt sér nýtt fjármagn úr skuldabréfasjóði sem stýrt er af BlackRock’s US Private Credit. Lánið nemur 35 milljónum Bandaríkjadala eða tæplega 4,4 milljörðum króna. Frá þessu segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.
„Það er ákaflega ánægjulegt að fá þessa kröftugu innspýtingu úr skuldabréfasjóðum BlackRock sem er á meðal öflugustu sjóðastýringarfyrirtækja heims. Þessi nýja fjármögnun er mikil viðurkenning á þeim árangri sem við höfum náð á undanförnum árum í að hasla okkur alþjóðlegan völl sem eitt af leiðandi vörumerkjum í hágæða drykkjarvatni,“ er haft eftir Jóni Ólafssyni, stofnanda og stjórnarformanni Icelandic Glacial í tilkynningunni.
Fjármögnunin hefur forgang á aðrar kröfuhafa Icelandic Glacial. Jafnframt efnir Icelandic Glacial til hlutafjáraukningar að fjárhæð 31 milljón Bandaríkjadala eða tæplega fjögurra milljarða íslenskra króna sem boðin verður bæði núverandi og nýjum fjárfestum til þess að renna styrkari stoðum undir áframhaldandi vöxt.
Fréttin hefur verið uppfærð
Ný tilkynning var að berast Viljanum frá Icelandic Glacial, um að hlutafjáraukningu þeirri sem nefnd er að ofan, sé lokið.