Sir Roger Scruton, lést á dögunum, 75 ára að aldri. Hann var íhaldssamur heimspekingur og fræðimaður, og á margan hátt „eitt af því næsta sem Bretland hefur komist í að eignast almennan hugsuð“, „uppáhalds íhaldstákn“ Breta (skv. hans eigin lýsingu) og jafnvel „róttækur hugsuður“.
Breska blaðið The Telegraph birti minningargrein um Sir Roger Scruton, en hann lést þann 12. janúar sl. Viljinn þýddi.
Sem einn umdeildasti maðurinn í breskri opinberri umræðu, starfaði Sir Scruton sem fræðimaður, blaðamaður og afkastamikill rithöfundur. Hann varð sem boxpúði fyrir formælingar og gagnrýni vinstri vængs stjórnmálanna. Sir Scruton var reglulega úthrópaður í háskólum og hindraður í að fá að tala, þrátt fyrir að njóta orðstírs sem fyrsta flokks atvinnuheimspekingur á meðal fræðimanna af öllu pólitíska litrófinu.
Sir Scruton var samsettur úr einingum, sem sumum virtist ekki passa saman: málafærslumaður, fagurfræðingur, kennari við Birkbeck College (hluti af háskólanum í London, með verkalýðshefð), stofnandi og ritstjóri hins ofuríhaldsama Salisbury Review, og ástríðufullur refaveiðimaður. Hann var vanur að fara með hunda á veiðar, í gömlum veiðifötum Enoch Powell, þó að jakkinn hafi sprottið í sundur í fyrsta skiptið sem hann notaði hann.
Skoðanir hans ollu oft óskiljanlegu uppnámi
Eins og við var að búast, ollu skoðanir hans á refaveiðum uppnámi. „Ég spyr mig hvers vegna ég reiti fólk svona til reiði með því að segja bara það sem ég er að hugsa,“ sagði Scruton við Nicholas Wroe hjá The Guardian. „þó ég viti að aðrir séu á öðru máli en ég, þá er það ekkert sérstaklega óþolandi fyrir mig.“
Þrátt fyrir að hann hafi stutt áherslur Margaret Thatcher á frjálsa markaði um miðjan áttunda áratug síðustu aldar, fannst Scruton þægilegra að samsama sig pistlahöfundum hjá The Spectator og The Daily Telegraph, á þeim tíma sem þeir stóðu fyrir settlegri, efristéttarlegri íhaldssemi en þá sem Thatcher stóð fyrir.
„Þetta snerist um undirliggjandi tilfinningu fyrir mikilvægi sögu og hefðar,“ rifjaði hann upp, „að gera hlutina innan ramma. Lítilsháttar endurbætur. Markaðsbúskapurinn var góður hlutur, en hann var ekki grundvöllur félagslegrar reglu, og þyrfti að verða samþykktur og aðlagaður að öllum hefðum. Það myndi gera fólki kleift að lifa saman í sátt, frekar en bara að keppa sín á milli. En undir Thatcher gilti einungis hinn frjálsi markaður.“
Stjórnmál Scruton voru án efa tengd heimspeki hans, sem var í meginatriðum Hegelísk. Hann taldi að allir mikilvægustu þættir lífsins – sannleikur (skynjun á heiminum eins og hann er), fegurð (sköpun og þakklæti fyrir hluti sem eru metnir fyrir þeirra eigin sakir) og það að ná að verða það besta sem maður getur orðið (stofnun einstaklings með heildstæða, sjálfstæða sjálfsmynd) – er aðeins hægt að ná, ef maður er hluti af menningarsamfélagi þar sem merking, staðlar og gildi eru staðfest og samþykkt.
Vildi varðveislu hlutanna gegn marxísku niðurrifi
Hann hafði víðtækan og djúpan skilning á sögu vestrænnar heimspeki í heild sinni. Sum af hans bestu heimspekilegu verkum, samanstóðu af því að útskýra mun betur en oft hefur verið raunin, hvernig ólíkir skólar vestrænnar heimspeki tengjast hver öðrum.
Scruton rifjaði upp hvenær hann uppgötvaði sína íhaldssömu sannfæringu. Það var í óeirðunum í París í maí árið 1968, þegar hann leit út um glugga í Latínu-hverfinu, þar sem nemendur rifu upp götusteina til að grýta óeirðalögreglu.
„Mér varð skyndilega ljóst að ég stæði hinumegin,“ sagði hann. „Það sem ég sá, var óskipulegur hópur sjálfhverfs rumpulýðs í millistétt. Þegar ég spurði vini mína hvað þeir vildu, hvað voru þeir að reyna að gera, voru einu svörin sem ég fékk þetta fáránlega marxista þvaður.“
„Ég fékk viðbjóð á því, og hugsaði með mér að það hljóti að vera leið til baka, til varnar vestrænni siðmenningu gegn þessum hlutum. Það var þá sem ég varð íhaldsmaður. Ég vissi að ég vildi varðveita hlutina frekar en að leggja þá í rúst.“
Vinstri gagnrýnendur tættu ritverkin hans í sig, og skoðanir hans á samfélaginu voru hafðar að háði og spotti. Sem fræðimaður á níunda áratugnum varði hann niðurskurð á menntun, sem olli miklu uppnámi í fræðasamfélaginu.
Veigraði sér ekki við að taka erfiðustu slagina
En það var umræðan um sjálfsmynd þjóðar sem olli eitruðustu árásunum. Á meðan flestir álitsgjafar forðuðust að taka þátt í heitum umræðum um þjóðerni, kynþátt, sögu og menningu, veigraði Scruton sér ekki við því.
Árið 1984, sem ritstjóri Salisbury Review, birti hann grein sem bar yfirskriftina „Menntun og kynþáttur“ eftir skólastjóra í Bradford, Ray Honeyford, sem hélt því fram að fjölmenningarleg menntun væri skaðleg börnum innflytjenda.
„Það varð allt brjálað,“ rifjaði Scruton upp. „En á níunda áratugnum gátu allar efasemdir um rétttrúnað frjálslynda vinstrisins aðeins haft rasískan tilgang. Ég vil halda því fram að það að ræða þessi mál ekki opinskátt, styðji kynþáttahatara mun frekar. En þetta kom í okkur í hræðileg vandræði. “
Bók hans England: An Elegy (2000), þrátt fyrir að fengið sinn skerf af háði þar sem hann syrgði, meðal annars, dauða limgerðanna (sem afmarka land og vegi í Bretlandi), dvínandi mikilvægi kirkjunnar og andlát enska herramannsins, fékk hann breiðara samþykki fyrir námsstyrkjum.
Jafningi Scruton úr Verkamannaflokknnum, Lord Bragg, hrósaði honum fyrir að „hafa komið skynseminni á framfæri, í brjálæðinu sem hefur heltekið þá sem finna Englandi allt til foráttu.“
Ummæli hans voru afbökuð til að klekkja á honum
En margir aðrir vinstri menn voru miskunnarlausir, og ásakanir um kynþáttafordóma komu fram á ný í apríl á síðasta ári. Það var eftir að meint gyðingahaturs og íslamófóbísk ummæli voru rakin til Scruton, í viðtali við The New Statesman, sem síðar reyndust hafa verið vegna villandi framsetningar og vandlega breyttrar tilvitnunar blaðamannsins.
Í nóvember 2018 hafði ritari sveitarstjórnamála, James Brokenshire, skipað Sir Scruton sem ólaunaðan formann nýrrar nefndar fyrir bættar og fegurri byggingar, sem var stofnuð til að stuðla að betri hönnun á heimilum og búsetusvæðum, til þess eins að segja honum upp skyndilega eftir birtingu The New Statesman-greinarinnar.
Brottrekstri Sir Scruton var fagnað með því að aðstoðarritstjóri tímaritsins, George Eaton, sem einnig var höfundur greinarinnar, birti mynd af sjálfum sér á samfélagsmiðlum með flösku af kampavíni og yfirskriftinni: „Tilfinningin þegar maður fær hægrisinnaða rasistann og hommahatarann Roger Scruton rekinn sem ráðgjafa íhaldsstjórnarinnar.“
The New Statesman neyddist síðar til að biðjast afsökunar, eftir að upptöku af viðtalinu var lekið í The Spectator, en hún sýndi hvernig ummæli Sir Scruton höfðu verið tekin algerlega úr samhengi. Eaton var lækkaður í starfi og íhaldsþingmönnum, sem höfðu tekið þátt í að hrauna yfir Scruton af þessu tilefni, var gert að draga athugasemdir sínar til baka. Brokenshire sendi frá sér opinbera afsökunarbeiðni, og í júlí var Sir Scruton skipaður aftur sem meðformaður framkvæmdastjórnarinnar.
Saga og persónulegur ferill Sir Roger V. Scruton
Roger Vernon Scruton fæddist 27. febrúar árið 1944, í Buslingthorpe, Lincolnshire. Faðir hans, Jack, af Manchester verkalýðsstétt, gerðist kennari sem hataði yfirstéttina og elskaði ensku sveitina. Móðir hans, Beryl Claris – alltaf kölluð Johnny – las rómantískan skáldskap og „skemmti silfurhærðum dömum sem birtust eins og kraftaverki næst um leið og faðir hans var horfinn út um dyrnar“.
Scruton var menntaður við Royal Grammar School, High Wycombe, en hann var rekinn þaðan – skömmu eftir að hafa unnið Cambridge-námsstyrk – fyrir að setja upp leikrit þar sem hálf nakin stúlka birtist á brennandi sviðinu. Þegar hann kom í Jesus College árið 1962, skipti eftir fyrsta daginn úr náttúruvísindum yfir í heimspeki.
Honum var ætlaður akademískur ferill, en hann hafði engu að síður metnað til að verða rithöfundur, og tók stöðu við háskólann í Bordeaux. Hann flutti til Rómar og skrifaði skáldsögu sem var aldrei gefin út. Scruton kom aftur árið 1969 til Cambridge, sem rannsakandi í fagurfræði við Peterhouse.
Tveimur árum síðar flutti Scruton til Birkbeck College í London til að taka við stöðu sem heimspekikennari og gerðist prófessor í fagurfræði árið 1985.
Þegar hann kom var hann „í íhaldssömum hug“ og samstarfsmenn hans við hina vinstri sinnuðu stofnun „litu á mig með mikilli tortryggni“. Hann lagðist gegn tilraunum til að setja meiri Foucault og Marx á námsskrána, en ákvað að það væri skynsamlegt að hafa stöðu varakennara, las fyrir fagfélagið og var kallaður til árið 1978.
Hjá Birkbeck kenndi Scruton aðeins á kvöldin og gat þannig átt feril sem rithöfundur og blaðamaður, auk þess að færa sig inn í heim stjórnmálanna. Honum ofbauð stjórn Heath – „það virtist vera mikið rými fyrir hugsun en enginn var að hugsa“ – hann stofnaði Íhaldssama heimspekihópinn ásamt þingmanninum Hugh Fraser, Jonathan Aitken (þá blaðamanni) og fræðimanninum John Casey .
Honum var vísað af lista íhaldsframbjóðenda árið 1978 fyrir að vera „of bóklegur“. Scruton heimsótti Prag árið eftir, til að halda leynilegan fyrirlestur með tékkneska andspyrnu-heimspekingnum Julius Tomin.
„Ég áttaði mig á því að þarna var ástand sem var algjörlega utan míns reynsluheims,“ minntist hann. „Á sama tíma var þetta staður sem var mér einna kærastur. Vitsmunalíf var raunverulega hættulegt þarna. Þau voru fangelsuð af vinstra lögregluliði.“
Ásamt fleiri breskum fræðimönnum, aðallega frá Oxford, byrjaði Scruton að vinna með Jan Hus menntunarsjóðinum, nefndum eftir 14.-15. aldar tékkneskum umbótasinna og píslarvotti, við að útvega bækur, styðja framleiðslu efnis sem var bannað af sósíalistum, og kenna.
Scruton lærði tékknesku og var á kafi í tékkneskri menningu. Eftir hrun kommúnismans, stofnaði hann ráðgjafafyrirtæki til að skapa sambönd á milli vestrænna fyrirtækja og nýju ríkisstjórnarinnar. Hann fékk í kjölfarið æðsta borgaralega heiður Tékklands fyrir störf sín.
Á níunda áratugnum voru greinar Scruton í The Times og ritstjórn hans í Salisbury Review gerð að skotmarki frjálslyndu vinstri elítunnar. Þegar gagnrýnendur rifu í sig skáldsögu hans Francesca (1991), um skólapilt sem fellur fyrir yfirstéttarstúlku, hætti hann að skrifa skáldsögur og snéri skapandi kröftum sínum að tónlist.
Sem fær píanóleikari með smekk fyrir 20. aldar tónlist, skrifaði hann óperu, Ráðherrann, um stjórnmálamann sem fórnar persónulegu lífi sínu fyrir metnaðinn. Hún var sett á svið í Tékklandi og í Oxford.
Árið 2005 skrifaði hann aðra óperu, Violet, byggða á lífi breska harpsíkord leikarans Violet Gordon-Woodhouse, en hún var flutt tvisvar í Guildhall School of Music.
Árið 1992 tók hann við stöðu prófessors í heimspeki við Boston University í Bandaríkjunum, þar sem hann komst að því að sumir af nemendum hans höfðu í hávegum „þær leifar af evrópskri menningu sem flest ungt fólk í Englandi hefur gleymt“.
Scruton hélt því fram að ensk menning væri orðin gróf, vinsældir popptónlistar og fótbolta væru helstu raunveruleg dæmi birtingarmyndar menningar þjóðarinnar.
Næsta skáldskaparverk hans, Xanthippic Dialogues (1993), um konur Platós, var betur tekið, og varð Scruton hvatning til að snúa aftur árið 1995 til Bretlands, þar sem hann bjó ásamt seinni konu sinni á bæ í Wiltshire og í tveggja herbergja íbúð í Albany, í Piccadilly.
Árið 2002 var Scruton gagnrýndur í The Guardian fyrir að hafa skrifað greinar um reykingar, án þess að upplýsa að hann fengi greitt frá tóbaksfyrirtæki, opinberun sem varð til þess að Financial Times og Wall Street Journal losuðu sig við hann sem dálkahöfund, Chatto & Windus hættu við samningaviðræður um bók og Birkbeck afturkölluðu forréttindi hans sem gestaprófessors.
Deilurnar og tilkoma veiðilaganna árið 2004, leiddu til þess að Scruton sneri aftur til Bandaríkjanna, þar sem hann og kona hans keyptu Montpelier, 18. aldar gróðurhús í Virginíu, sem Scruton kynnti sem vettvang fyrir brúðkaup og aðra viðburði, á meðan hann hélt stundakennara fræðastöðu við Institute for Psychological Sciences í Arlington, Virginíu, þá við American Enterprise Institute í Washington.
Frá árinu 2001 til 2009 skrifaði hann víndálk fyrir The New Statesman sem leiddi til útgáfu I Drink Therefore I Am: A Philosopher’s Guide to Wine (2009).
Scruton fjölskyldan sneri aftur til Bretlands árið 2010. Scruton tók ólaunaða rannsóknarstöðu við Buckingham háskóla og ógreidda þriggja ára gestaprófessorsstöðu við Oxford háskóla til að kenna framhaldsnám í fagurfræði. Frá árinu 2011 til 2014 var hann í stundakennslu við St. Andrews í siðferðisheimspeki.
Hann snéri aftur til að skrifa skáldskap með Notes from Underground (2014), skáldsögu sem byggð er á reynslu hans í Tékkóslóvakíu, og The Disappeared (2015), sem fjallar um barnamansal í bæ í Jórvíkurskíri.
Heimspekirit Scruton voru meðal annars: Art and Imagination (1974); The Aesthetics of Architecture (1979); Sexual Desire (1986); An Intelligent Person’s Guide to Philosophy (1996); The Aesthetics of Music (1997); Animal Rights and Wrongs (2000), og Green Philosophy: How to Think Seriously About the Planet (2011).
Pólitísk skrif hans innihéldu: The Meaning of Conservatism (1980); The Politics of Culture (1981); Dictionary of Political Thought (1982); Thinkers of The New Left (1985); Conservative Texts (1992); How to Be a Conservative (2014) og Conservatism: An Invitation to the Great Tradition (2017).
Bók hans Our Church: A Personal History of the Church of England (2013) færði rök fyrir áframhaldandi mikilvægi Englandskirkju á 21. öld.
Sumir áttu í erfiðleikum með að aðgreina persónu mannsins frá verkum hans. Heimspekingurinn AC Grayling, sem var ósammála Scruton pólitískt, fannst hann „afar heillandi og nokkuð ljúfur“ í eigin persónu. „Þessi frekar niðurdrepandi, óskýra mynd sem dregin er upp af honum aftur og aftur til að segja hluti eins og „tökum aftur upp hengingar“ og fleira í þeim dúr, er ekki raunverulega einkennandi fyrir hann,“ skrifaði hann.
Á sama tíma neitaði marxista heimspekingingurinn G A Cohen að kenna málstofu með Scruton, þótt þeir hafi síðar orðið vinir.
Scruton var sleginn til riddara árið 2016 fyrir „þjónustu við heimspeki, kennslu og almenningsfræðslu“ og var útvalinn félagi í Bresku akademíunni og Konunglega bókmenntafélaginu. Árið 2019 hlaut hann Stórkross Reglu verðleikanna í Póllandi.
Roger Scruton kvæntist árið 1973 Danielle Laffitte, námsmanni sem hann hafði kynnst í Frakklandi, en þau skildu 1979. Hann kvæntist Sophie Jeffreys, byggingarfræðingi sem var 28 árum yngri en hann árið 1996, og eignaðist með henni son og dóttur.
Sir Roger Scruton, fæddur 27. febrúar 1944, dáinn 12. janúar 2020.