Íhugar að ráðast í breytingar á fyrirkomulagi Breska ríkisútvarpsins

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.

Líklegt þykir að samband bresku ríkisstjórnarinnar og Breska ríkisútvarpsins (BBC) muni stirðna enn þar sem Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, íhugar nú að láta hætta að eltast við fólk sem greiðir ekki afnotagjaldið af BBC. Frá þessu greinir Daily Mail í dag.

Forsætisráðherrann gaf í skyn í kosningabaráttunni að hann vildi afnema afnotagjaldið, þar sem hann dragi í efa langtíma ávinning fyrirkomulagsins.

Eftir að hafa unnið stórfelldan meirihlutasigur á breska þinginu sem formaður Íhaldsflokksins, hefur Johnson fyrirskipað aðstoðarmönnum sínum að ráðast í endurskoðun á því hvort enn eigi að sækja menn til saka fyrir að hafa ekki greitt afnotagjaldið.

Sniðganga BBC vegna meintrar hlutdrægni stöðvarinnar

Þetta kemur í kjölfar þess að því var haldið fram að ríkisstjórnin hafi bannað ráðherrum að birtast í dagskrá BBC Radio 4 vegna áhyggna af meintri hlutdrægni stöðvarinnar með Evrópusambandinu (ESB).

Íhaldsflokkurinn sendi engan í morgunfréttaþátt BBC á föstudag eða í gær, en búist er við að sniðganga af þeirra hálfu verði áfram nema merkjanleg breyting verði á nálgun BBC.

Johnson gaf í skyn á meðan á kosningabaráttunni stóð að vænta mætti mikilla breytinga (e. big shake-up) á fyrirkomulaginu á BBC ef hann héldi völdum.

Spurður af verksmiðjustarfsmanni í kosningabaráttunni, hvort hann myndi afnema afnotagjöldin af BBC svaraði hann:

„Hversu lengi er hægt að réttlæta kerfi þar sem allir sem eru með sjónvarp þurfa að borga fyrir að fjármagna tiltekna sjónvarps- og útvarpsstöð? Það er spurningin.“