Íhugunarefni hvort sé þess virði að vera í pólitískum flokki

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, f.v. þingmaður og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd/Alþingi

„Þau eru mörg íhugunarefnin þessa dagana, það er til dæmis íhugunarefni hvort það sé þess virði að vera skráður félagi í pólitískum flokki.“

Þetta sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrum þingmaður og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og f.v. bæjarstjóri Mosfellsbæjar á facebook síðu sinni síðdegis í dag.

Viljinn hafði samband við hana í framhaldinu en hún neitaði að tjá sig frekar um málið.

Benedikt Jóhannesson, f.v. sjálfstæðismaður, f.v. formaður, þingmaður og ráðherra Viðreisnar svarar og segir:

„Í sumum flokkum líður manni ágætlega. Í öðrum…“ og birtir fræga auglýsingu stofnfundar Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál, sem haldinn var á sunnudaginn.

Ásta Möller, f.v. alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, svarar honum þá og segir: „Þá er líka spurning um oftúlkun.“

Ef til vill skortur á lýðræðislegu umhverfi til umræðu

Elliði Vignisson, f.v. bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og núverandi bæjarstóri Ölfuss fyrir Sjálfstæðisflokkinn svarar Ástu og segir:

„ ….og ef til vill skort á virðingu fyrir því að í lýðræðislegu umhverfi verður að vera svigrúm til að ræða það sem á fólki brennur. Þannig þarf að bera bæði virðingu fyrir þeim sem velja að yfirgefa flokk ef þeir fá ekki beygt hann undir sína skoðun (t.d. hvað varðar inngöngu í EU) og þeim sem velja að skapa vettvang fyrir umræðuna (t.d. um fullveldi).“