Ingibjörg Sólrún: Þurfum að endurheimta bjartsýnina og viljann

Þegar Berlínarmúrinn féll og frelsið vann, fyrir 30 árum í dag. Mynd/Wikipedia

„Það er því miður svo, að þrátt fyrir allar vonirnar og öll þau framfaraskref sem hafa verið stigin á þessum þremur áratugum, stöndum við að nýju frammi fyrir ógnunum við lýðræði og mannréttindi. Þverrandi virðing fyrir réttarríkinu, aukin hatursorðræða, ekki síst stjórnmálaleiðtoga, og æ djúpstæðari skoðanamunur koma í auknum mæli í veg fyrir þau heilbrigðu og nauðsynlegu skoðanaskipti sem liggja til grundvallar lýðræðinu.“

Þetta skrifar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, forstjóri Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, f.v. utanríkisráðherra og f.v. formaður Samfylkingarinnar, á facebook vegg sinn í dag. Hún vísar þar í grein eftir sig, sem er þýdd og birt í þýska blaðinu Taz í dag.

Ingibjörg Sólrún segir að nú, 30 árum eftir fall Berlínarmúrsins, fari hún með mikinn hluta af tíma sínum, sem yfirmaður evrópskrar mannréttindastofnunar, í að tala um ógnanir. 

Ingibjörg Sólrun Gísladóttir.

„Á sama tíma, og kannski vegna þessa, verð ég æ sannfærðari um að lausnin á mörgum af þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir liggur í því að endurheimta bjartsýnina og viljann til að bæta framtíðina sem einkenndi árin eftir 1989. Gleymum því ekki að þrátt fyrir bakslagið sem við upplifum núna, höfum við náð býsna langt – og lengra en mörg okkar þorðu að vona þegar múrinn byrjaði að molna þennan nóvemberdag fyrir þrjátíu árum.

Ef það er eitthvað sem samfélög okkar þurfa að skilja, eigi þau að blómstra, þá er það að lýðræði snýst ekki um sigurvegara og tapara, heldur snýst það um virðingu fyrir ólíkum skoðunum og viljanum til að leita málamiðlana. Mörg samfélög eru undirlögð þeirri hugsun að sigurvegarinn ráði öllu. Það er hins vegar slíkur hugsunarháttur sem er hin raunverulega ógn við lýðræðið og við mannréttindin sem lýðræði byggir á.

Gleðin sem skein úr andlitum þeirra sem brutust yfir og í gegnum Berínarmúrinn fyrir 30 árum, sagði okkur margt, og ekki síst það að mannréttindi eru fyrir alla. Þann 9. nóvember 1989 efaðist enginn um þetta. Núna eru þeir hins vegar allt of margir sem sjá sér hag í því að grafa undan hinum algilda rétti til að njóta mannréttinda. Við verðum því enn á ný að taka höndum saman til að minna á að mannréttindi eru ekki fyrir meirihlutann eða minnihlutann, þau eru fyrir alla. Þau voru það þá, þau eru það nú.“