„Aldrei hefur verið jafn ódýrt og aðgengilegt að stofna fjölmiðil í sögu Íslands og núna. Það eina sem þarf er fartölva og ódýr vefsíða, en áður fyrr þurfti aðgang að prentvélum, dreifingu og svo framvegis. Það skýtur skökku við að tekið sé upp á því að niðurgreiða rekstur fjölmiðla þegar það er raunin,“ sagði Ingvar Smári Birgisson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) í samtali við Viljann, sem ræddi við hann vegna tilkynningar frá stjórn sambandsins.
Stjórn SUS hafnar fjölmiðlafrumvarpinu
Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) skorar á þingflokk Sjálfstæðisflokksins og aðra þingmenn að hafna fjölmiðlafrumvarpi Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra, mæli hún fyrir frumvarpinu í haust.
Fjölmiðlar hafa mikilvægu hlutverki að gegna í lýðræðissamfélögum og er mikilvægi óháðra og frjálsra fjölmiðla ótvírætt. Um leið og þeir eru gerðir háðir velvild stjórnvalda og hinu opinbera eru þeir hvorki frjálsir né óháðir og ekki eins vel til þess fallnir að stuðla að opinni og upplýstri umræðu. Frumvarpið mismunar þar að auki fjölmiðlum eftir stærð ritstjórna þeirra og hefur takmörkuð áhrif á rekstur stærri fjölmiðla sem halda úti öflugustu ritstjórnunum, segir í tilkynningunni.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að bæta eigi starfsumhverfi fjölmiðla á kjörtímabilinu sem nú er hálfnað. SUS fagnar þessu markmiði ríkisstjórnarinnar og hvetur ríkisstjórnina til að taka á samkeppnisumhverfi fjölmiðla á Íslandi með því að draga úr starfsemi Ríkisútvarpsins og samhliða slíkum aðgerðum taka stofnunina af auglýsingamarkmiði. Þá þarf að rýmka heimildir til auglýsinga til að jafna stöðu íslenskra fjölmiðla gagnvart erlendum net- og samfélagsmiðlum í auglýsingasölu.
Hlutverk fjölmiðla að veita stjórnvöldum aðhald
„Eitt helsta, ef ekki stærsta, hlutverk fjölmiðla er að veita stjórnvöldum aðhald. Ég á erfitt með að sjá hvernig það hlutverk fer hönd í hönd við að vera fjárhagslega háður stjórnvöldum,“ sagði Ingvar Smári jafnframt.
„Svo er fyrirséð verði frumvarpið að lögum að þetta niðurgreiðslukerfi muni stækka frá ári til árs, eins og allt annað hjá hinu opinbera. Það verður aldrei undið ofan af þessu nýja fitulagi á hið sístækkandi bákn ríkisins.“