Innflytjendur búa í lakara húsnæði og við þrengsli

Atvinnuþátttaka innflytenda á Íslandi er hærri en innlendra, innflytjendur þiggja minni félagslegar greiðslur að jafnaði og algengara er að þeir séu ofmenntaðir fyrir störfin sem þeir gegna.

Þetta og fleira kemur fram í Félagsvísum: Sérhefti um innflytjendur Hagtíðinda Hagstofu Íslands, sem kom út í lok janúar.

Markmið útgáfunnar er að draga upp heildstæða mynd af félagslegri velferð innflytjenda á Íslandi, og sé þetta í fyrsta skipti sem Hagstofa Íslands gefi út svo yfirgripsmikið efni um þennan málaflokk, að því er fram kemur í heftinu. 

Þar kemur fram að innflytjendum á Íslandi hafi farið fjölgandi sl. 10 ár. Árið 2008 hafi  innflytjendur á Íslandi verið 8,6% mannfjöldans, en 10 árum seinna séu þeir orðnir 12,6%, árið 2018. Hlutfalli innflytjenda svipi nú til Noregs, 14,1%, og Danmerkur, 10,2%,í ársbyrjun 2018, en sé talsvert lægra en í Svíþjóð 18,6% og talsvert hærra en í Finnlandi 6,2%, með þeim fyrirvara þó að ekki séu notaðar alveg sömu aðferðir við að skilgreina hver teljist innflytjandi á milli landanna.

Flestir koma frá Póllandi

Langflestir innflytjendur á Íslandi séu á aldrinum 25-49 ára og komi frá Austur-Evrópu, þar af flestir frá Póllandi. Hærra hlutfall innflytjenda en innlendra sé á vinnumarkaðsaldri og atvinnuþátttaka þeirra sé hærri en innlendra, en svipað hlutfall innflytjenda og innlendra séu skráðir atvinnulausir. Fleiri innflytjendur eru ofmenntaðir fyrir störf sín en innlendir, og sé þá átt við menntun á háskólastigi.

Fæðingartíðni innflytjenda er lægri en innlendra, og flestir annarar kynslóðar innflytjendur á Íslandi enn á barnsaldri, eða yngri en 18 ára.  Skólasókn innflytjendabarna og -ungmenna sé lægri en innlendra og þá sérstaklega á framhaldsskólastigi. Færri innflytjendur útskrifist en innlendir og vísbendingar séu um hærra brottfall innflytjenda úr námi en innlendra.

Tekjur, eignir og skuldir innflytjenda eru á heildina lægri en innlendra, en það dragi saman með hópunum eftir því sem innflytjendur hafi dvalist lengur á landinu.  Að jafnaði fái innflytjendur minni félagslegar greiðslur, á borð við, lífeyrisgreiðslur og atvinnuleysisbætur en innlendir.

Einnig kemur fram að fleiri innflytjendur á Íslandi búi í leiguhúsnæði, í lakara húsnæði og fleiri búa við þrengsli og í lakara umhverfi en innlendir.