
Íslendingar hafa ærna ástæðu til að fylgjast vel með þróuninni, og hugleiða skammtíma- og langtímahagsmuni sína þegar kemur að valdatafli stórveldanna á norðurslóðum. Þetta var á meðal niðurstaðna erindis sem Albert Jónsson, fv. sendiherra og framkvæmdastjóra öryggismálanefndar, hélt á fundi Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins, á degi Leifs Eiríkssonar, 9. október sl. Erindið var flutt á ensku, og eftirfarandi er lausleg þýðing á niðurlagi þess.
Albert sagði m.a. að vert sé leggja áherslu á að hvorki Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, né Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi sett Rússland í forgang í heimsóknum sínum hingað til lands á árinu, og að ekki hafi verið minnst á neina varanlega viðveru bandaríska herliðsins á Íslandi á ný. „Þeir höfðu ekki áhuga á Atlantshafi, heldur norðurslóðum. Ekkert af þessu kemur á óvart miðað við róttækan mun á samhengi alþjóðamálanna nú, miðað við kalda stríðið og seinni heimsstyrjöldina áður fyrr.“
Minni áhersla Pence og Pompeo á Rússland, endurspegli líklega þá staðreynd, að stefnumótandi hagsmunir Rússa á norðurslóðum séu þekktir og fyrirsjáanlegir, og hafi verið það í áratugi. Hernaðarlegt afl Rússlands sé takmarkað utan aðliggjandi svæða, að því leyti að sjóher landsins sé hannaður fyrir strandsvæði frekar en úthöfin.
„Megintilgangur heimsókna Pompeo og Pence virðist greinilega hafa verið að undirstrika það við Kína, að Ísland sé á bandarísku áhrifasvæði. Kínverjar virðast fyrir sitt leyti ætla að hasla sér völl hérlendis, og bæði Pompeo og Pence, en þó sérstaklega varaforsetinn, vildi á opinskáan hátt koma því til skila, að hann ætlaði að fyrirbyggja slíka kínverska aðgerð.“
Albert sagði Ísland þó áfram tengt bandarískum öryggishagsmunum gagnvart Rússlandi, en í minna mæli en áður. Landið okkar sé nú einnig tengt samkeppni Bandaríkjanna og Kína. „Af þeim sökum virðist Ísland njóta meiri áhuga Bandaríkjanna en verið hefur í allnokkurn tíma. Eftir margra ára skeytingarleysi – jafnvel vanrækslu eins og utanríkisráðherrann Pompeo orðaði það.“
Hvað ber framtíðin í skauti sér?
„Öflin sem fyrst og fremst móta heimsmálin, endurspeglast í sögulegri þróun alþjóðastjórnmálanna, frá yfirráðum á Atlantshafssvæðinu, yfir til Asíu og á Kyrrahafssvæðið. Þangað færðist þungamiðjan, á brott frá okkar stað í veröldinni.“
Albert sagði að með áframhaldandi hlýnun jarðar, og enn engum líkum á orkuskiptum í heimi háðum jarðefnaeldsneyti, séu merki þess að næstu áratugi muni norðurslóðir opnast langt umfram það sem þegar hefur orðið. „Afleiðingin verður stóraukin nýting auðlinda, opnun Norðursjóleiðar að fullu, og í framtíðinni – siglingaleið þvert yfir Norðurpólinn. Hið síðarnefnda myndi opna svæðið fyrir stórum gámaskipum – sem er forsenda þess að norðurslóða siglingar gefi raunhæfan valkost við Suez-skurðinn og aðrar helstu siglingaleiðir heims.“
Opnun Norðurpólsleiðarinnar gæti leitt til sviptinga í heimsmálunum, sem myndu færa norðurskautssvæðið nær þungamiðjunni. Þannig kæmist Norður-Atlantshafið aftur á kortið í alþjóðasamhengi, sem hluti af hinum nýju siglingaleiðum. Ísland yrði á vegamótum þessara leiða – svo að segja – sem tengja Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu. Að lokum myndu hinar nýju siglingaleiðir hafa áhrif á öryggishagsmuni Bandaríkjanna.
„Líklega er enn langt í land. Engu að síður er augljóst að Bandaríkin vilja senda Kína skýr skilaboð um áhuga sinn á svæðinu. Hvað – í raun og veru – vekur áhuga Kínverja á Íslandi á þessum tímapunkti, og hvers vegna þeir krefjast þess að nú verði undirrituð viljayfirlýsing vegna Belti og brautar – er minna ljóst. Ef til vill til að reyna að ná fótfestu snemma í ferlinu.
Íslendingar hafi því ærna ástæðu til að fylgjast vel með þróuninni, og hugleiða skammtíma- og langtímahagsmuni sína þegar kemur að valdatafli stórveldanna á norðurslóðum.