Ísland staðfestir samning S.Þ. en gerir ákveðna fyrirvara

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra.

Ísland mun að óbreyttu styðja báðar alþjóðasamþykktirnar (um flóttamenn og farendur) sem verða til umfjöllunar í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og einnig senda háttsettan fulltrúa á ráðstefnuna í Marrakesh í næstu viku og taka þar þátt í að samþykkja alþjóðasamþykktina um farendur.

Þetta staðfestir upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins í svari við fyrirspurn Viljans. Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, sækir fundinn fyrir hönd íslenskra stjórnvalda.

Utanríkisráðuneytið segir í skriflegu svari til Viljans, að af hálfu þeirra ráðherra sem hafa með þessi málefni að gera muni Ísland styðja málið en fara um leið að dæmi Danmerkur, Noregs, Bretlands og fleiri ríkja og gera ákveðna fyrirvara við samþykktina.

Jón Þór Þorvaldsson, flugstjóri og þingmaður Miðflokksins (í leyfi Bergþórs Ólasonar) lýsti áhyggjum af því á Alþingi í vikunni að íslensk stjórnvöld muni skrifa á næstu dögum undir samning Sameinuðu þjóðanna um fólksflutninga á ráðstefnu sem boðað hefur verið til í Marrakech í Marokkó. Sjá frétt Viljans um málið í gær: Segir að landamæri Íslands muni opnast fyrir nánast öllum íbúum jarðar

Jón Þór Þorvaldsson, flugstjóri og varaþingmaður Miðflokksins.

Jón Þór kveðst þess fullviss að yfirgnæfandi hluti þjóðarinnar myndi setja spurningarmerki við þann samning ef því stæði til boða að taka afstöðu til hans.  „Afleiðing þessa samnings verður að landamæri Íslands munu opnast fyrir nánast öllum íbúum jarðar sem kjósa að flytja hingað burt séð frá stöðu,“ segir hann.

Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir að þessar samþykktir séu ekki lagalega bindandi og leggi því engar formlegar skyldur á ríkin.

„Hins vegar leggja samþykktirnar upp samvinnugrundvöll ríkja heimsins um framkvæmd þeirra skuldbindinga sem samþykktar voru í svokallaðri New York-yfirlýsingu S.þ. frá 2016.

Kallar ekki á lagabreytingar

Hvað samþykktina um farendur varðar byggir hún á núgildandi mannréttindasamningum og er hún samstöðuyfirlýsing aðildarríkja og hvatning til þeirra um mannsæmandi meðferð á farendum og málefnum þeirra, sem víða um heim hefur verið í miklum lamasessi. 

Afstaða Íslands í viðræðunum byggðist á áherslum ríkisstjórnarinnar um stuðningi við alþjóðleg mannréttindi; þeim lagaramma sem nú er í gildi á Íslandi varðandi réttindi farenda og flóttafólks, sbr. lög um málefni innflytjenda nr. 116/2012, lög nr. 80/2016 um útlendinga og lög nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Einnig var tekið mið af framkvæmdaáætlun frá 2016 um málefni innflytjenda. 

Efni samþykktarinnar er innan þess lagaramma og framkvæmdar sem nú þegar er í gildi á Íslandi og kallar lokaútgáfa samþykktarinnar ekki á lagabreytingar. Þá ber einnig að hafa í huga að það er grundvallaratriði í samþykktinni að hún haggar ekki við fullveldisrétti ríkja til að ráða stefnu sinni varðandi málefni farenda og stjórna þeim málaflokki í samræmi við alþjóðalög.

Málið var kynnt í ríkisstjórn í maí síðastliðnum og utanríkismálanefnd í júnílok,“ segir ennfremur í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Viljans.