Íslensk stjórnmál risastór hræsni: Logið að kjósendum og þeir blekktir og sviknir

Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsforingi á Akranesi og varaforseti ASÍ, er harðorður í garð Vinstri grænna fyrir að ljúga og svíkja öll sín fögru orð um stuðning við þá sem standa hvað verst í samfélaginu.

„Því spyr ég núna, hvar eru þingmenn Vinstri grænna? Sérstaklega í ljósi þess að krafa verkalýðshreyfingarinnar í komandi kjarasamningum er nákvæmlega sú sama og frumvarp þingmanna Vinstri græna hljóðaði uppá fyrir nokkrum árum. Það er að segja að lágmarkslaun dugi fyrir framfærsluviðmiðum sem Velferðaráðuneytið hefur gefið þannig að fólk geti framfleytt sér frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn.
Það er sorglegt að sjá hvernig þingflokkur og ráðherrar Vinstri græna breiða nú sængina upp fyrir haus, í ljósi þess að núna hafa Vinstri grænir raunverulegt tækifæri til að standa með íslensku verkafólki, vegna þess að flokkurinn leiðir ríkisstjórn Íslands,“ segir Vilhjálmur í færslu á fésbókinni.

„Þrátt fyrir gríðarlegan fagurgala Vinstri grænna á liðnum árum um að hækka þurfi lágmarkslaun verulega heyrist ekki eitt einasta orð frá þeim núna og það loksins þegar flokkurinn hefur stórkostlegt tækifæri að standa með þeim sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi,“ bætir hann við.

Hann segir að í stað þess að standa við stóru orðin um að vilja lagfæra kjör lágtekjufólks leggist allur þingflokkur Vinstri græna uppí rúm með þingflokki sjálfstæðismanna og breiði vel upp haus, nema þegar þarf að verja sérhagsmuni t.d. fjármálakerfisins.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður VG.

„Meira segja lætur þingfokkur VG það átölulaust að fjármálaráðherra hóti íslensku verkafólki um að ef það biðji um þá sanngjörnu kröfu um að lágmarkslaun dugi fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar þá komi ekki neinar skattbreytingar til hagsbóta fyrir lágtekjufólk. Ekki orð frá VG þótt hótanir fjármálaráðherra dynja á alþýðu þessa lands í aðdraganda kjarasamninga,“ segir hann.

Og verkalýðsforinginn er þungorður:

„Hefur sagan ekki bara sýnt okkur það að íslensk stjórnmálamenning sé ein risastór hræsni þar sem það telst alveg sjálfsagt að ljúga, blekkja og svíkja kjósendur, alþýðuna og heimilin eins og enginn sé morgundagurinn?“