Ítalir afgreiddu fjárlög í skugga hótana ESB

Ítalska þingið: Þingmenn stjórnarandstöðunnar í bláum bolum með áletruninni: Nægir skattar.

Neðri deild ítalska þingsins samþykkti fjárlög ársins 2019 nú á laugardag, 29. desember sl. Meirihluti Fimmstjörnu-hreyfingarinnar (M5S) og Bandalagsins – uppnámsflokka lengst til vinstri og hægri – samþykkti fjárlögin undir gagnrýni stjórnarandstöðunnar um að ríkisstjórnin lyti stjórn og skipunum frá ESB.

Fjárlögin voru afgreidd umræðulaust með atkvæðagreiðslu um traust þingmanna í garð ríkisstjórnarinnar, 327 greiddu atkvæði með stjórninni en 228 á móti, einn þingmaður tók ekki þátt í atkvæðagreiðslunni.

Ríkisstjórnin hafði lækkað útgjaldaliði fjárlaganna til að komast hjá refsiaðgerðum af hálfu ESB vegna reglna um fjárlagahalla sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Spáð er að hann verði 2,04% árið 2019 en þak ESB er 3%.

Öldungadeild ítalska þingsins afgreiddi fjárlögin fyrir jól og beitti einnig þeirri aðferð að láta atkvæðagreiðsluna snúast um traust í garð ríkisstjórnarinnar í stað þess að fjalla um einstakar breytingatillögur stjórnarinnar en þær voru alls um 700. Mikil reiði braust út hjá stjórnarandstöðunni vegna þessa sem sakaði ríkisstjórnina um að þora ekki í efnislegar umræður.

Svipað ástand myndaðist í neðri deildinni föstudaginn 28. desember þegar stjórnarandstaðan vildi ræða einstaka liði fjárlagafrumvarpsins en kröfu hennar um það var hafnað. Fundi var frestað þegar þingmenn tóku að kasta prentuðum eintökum frumvarpsins um þingsalinn. Gerðist það einnig laugardaginn 29. desember þegar gengið var til atkvæða.

Lögfræðingurinn og utan-flokkamaðurinn Giuseppe Conte forsætisráðherra sagði á blaðamannafundi 28. desember að ríkisstjórnin hefði ekki viljað komast hjá umræðu. Ekki hefði þó verið annarra kosta völ en að afgreiða fjárlagafrumvarpið á þennan hátt. Lýðræðisflokkurinn er í stjórnarandstöðu og kærði til stjórnlagadómstólsins að þingið hefði verið sett til hliðar við afgreiðslu fjárlaganna.

ESB hafnaði frumvarpinu í október

Það bar til í fyrsta sinn í sögu ESB í október 2018 að framkvæmdastjórn ESB hafnaði fjárlagafrumvarpi aðildarþjóðar, Ítalíu, vegna of mikilla áforma um útgjöld. Þar var meðal annars gert ráð fyrir almennum lágmarkslaunum og óbreyttum eftirlaunareglum.

Fyrir jól samþykkti ríkisstjórnin að draga úr útgjöldum vegna þessara tveggja liða. Þá hefur hún skuldbundið sig til að auka ekki 2,3 trilljóna evru skuldir Ítalíu á árinu 2019. Þær nema 131% vergri landsframleiðslu en ESB-þakið er 60%.

Fulltrúar Ítala og ESB stigu varlega til jarðar í viðræðum sínum um ítalska fjárlagafrumvarpið af ótta við að of mikil spenna eða harka í samskiptum þeirra kynni að grafa undan stöðugleika á mörkuðum og leiða til skuldakreppu í þriðja stærsta hagkerfi evru-svæðisins.

Án samkomulags hefði ESB að lokum getað refsað Ítölum með sekt sem næmi allt að 0,2% af vergri landsframleiðslu þeirra. Sú niðurstaða hefði þó ekki náðst án hörkudeilna Ítala og samaðila þeirra að evru-svæðinu.

Af vardberg.is, birt með leyfi.