„Þessi sextán ára málarekstur hefur verið mér þung byrði, bæði andlega og fjárhagslega, en ekki síður fyrir fjölskylduna mína. Öll þessi mál reyndu mikið á foreldra mína en þau eru bæði látin og fá því miður ekki að upplifa þessi málalok,“ segir athafnamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson um þau tímamót að Hæstiréttur hefur nú hafnað því að taka Aurum-málið til áfrýjunar. Var hann sýknaður af málinu í Landsrétti og því laus allra mála eftir áralanga stöðu sem sakborningur í réttarkerfinu.
Jón Ásgeir skrifar grein á vef Fréttablaðsins í dag, þar sem hann fer yfir þessi málalok frá eigin brjósti. Hann vísar þar m.a. til þess að hann hafi legið undir grun, sætt ákærum eða verið sakborningur í dómsmálum við ríkið samfellt í 5.992 daga.
„Ég lít svo á að Aurum-málið hafi verið sérstaklega gróf aðför að mér sem einstaklingi þar sem sérstakur saksóknari Ólafur Hauksson og rannsakendurnir Grímur Grímsson og Sveinn Ingiberg Magnússon leyfðu sér að halda undan mikilvægum gögnum í því skyni að koma sök á mig,“ segir Jón Ásgeir og bætir við að ekki megi gleyma hlut slitastjórnar Glitnis, sem hafi búið málið til og kært til lögreglu án þess að skoða það.
„Það hlýtur að verða farið ofan í saumana á því hvort meðlimir slitastjórnar, þau Steinunn Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson, séu ekki sek um að hafa blekkt yfirvöld í þessu tilfelli,“ segir hann.

„Að lenda í klóm ákæruvalds er erfitt. Maður upplifir sig smáan í samanburði við þá sem hafa allt valdið og alla sjóði ríkisins á bak við sig. Ég upplifði þá mörgu menn sem rannsökuðu og sóttu málin á hendur mér síðustu 16 árin þannig að þeir hefðu engan áhuga á að heyra eðlilegar skýringar á atvikum. Öll mál voru rannsökuð eins og sekt væri fyrirfram gefin niðurstaða. Ég sat 260 klukkustundir í yfirheyrslum og man ekki eftir því að hafa fengið spurningar frá rannsakendum eða saksóknurum um atriði sem væru mér í hag.
Ég á þá von að íslensk stjórnvöld dragi lærdóm af þessari aðför gegn mér og skikki rannsóknarlögreglu og saksóknara til að starfa eftir þeirri grundvallarreglu réttarríkisins að rannsaka mál jafnt til sýknu og sektar,” segir Jón Ásgeir Jóhannesson.