Jón Baldvin á aðdáendahóp sem alltaf snýr blinda auganu að misgerðum hans

Ingibjörg Sólrun Gísladóttir.

„Það þarf sterk bein og mikinn kjark til að ríða á vaðið og fara fram gegn mönnum eins og Jóni Baldvin Hannibalssyni sem eiga sér öflugan aðdáendahóp sem snýr alltaf blinda auganu að þeirra misgerðum.“

Þetta segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fv. utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar. Hún starfar nú á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í Póllandi.

Ingibjörg Sólrún var formaður Samfylkingarinnar þegar ásakanir komu upp um óviðeigandi framkomu Jóns Baldvins í garð kvenna og fór hún fram á að hann hætti með erindi í stjórnmálaskóla Samfylkingarfélagsins í Reykjavík. Við því var ekki orðið og sagði Ingibjörg Sólrún sig þá úr félaginu. Flokkurinn tók hins vegar þá ákvörðun að hafna því að hann tæki sæti í heiðurssæti á framboðslista í alþingiskosningum nokkru síðar.

„Þegar Guðrún Harðardóttir kom fram með þetta mál árið 2012 urðu engin eftirmál af því fyrir Jón Baldvin og hann hélt sínu striki eins og ekkert hefði í skorist. Sem betur fer hefur #metoo byltingin hjálpað konum að rjúfa þögnina og þær sem leggja út á þetta hættulega jarðsprengjusvæði eru ekki lengur einar. Áfram stelpur,“ segir Ingibjörg Sólrún í færslu á fésbókinni.