Jón Baldvin Hannibalsson, fv. utanríkisráðherra, segir að hagsmunir fjármagnseigenda og þýskra fjármálastofnana, hafi verið hafðir í algerum forgrunni hjá Evrópusambandinu og Seðlabanka Evrópu og fyrir vikið hafi mörg ríki komið mjög illa út fjárhagslega, miklu verra en Íslendingar sem hafi þó lent í sögulegu bankahruni.
Evran hafi algjörlega bruðist og Evrópusambandið hafi sýnt einstökum aðildarríkjum í vanda algera skítaframkomu, eins og hann orðaði það.
Jón Baldvin fór mikinn í Silfri Egils í dag þar sem hann ræddi við Egil Helgason um ESB, Evruna, stöðuna í alþjóðastjórnmálum og hinn umtalaða þriðja orkupakka sem ætlunin er að leiða inn í íslensk lög á vorþingi.
„Það er ekki hægt að svipta öll aðildarríki ESB öllum hagsstjórnartækjum til að laga sig að breyttum aðstæðum,“ segir Jón Baldvin og bendir á framkomu ESB gagnvart Ítalíu nú og Grikklandi fyrir fáeinum árum, þar sem stjórnvöld voru neydd til að selja eigur almennings fyrir slikk að kröfu þýskra fjármálastofnana.
Á sama tíma hafi aðrar þjóðir getað beitt víðkunnum hagfræðikenninum til að auka peningamagn í umferð og örva þannig hagkerfið, til dæmis Bandaríkin. Evrópusambandið hafi farið aðra leið, hvatt til niðurskurðar og einkavæðingar af því að ekki mátt afskrifa það sem þýskir bankar höfðu lánað út og suður, enda þótt öll rök stæðu til þess.

Hann segist enn vera Evrópusinni, en hann gagnrýni mjög að fjármagnseigendur ráði alveg för og forystuleysi Evrópusambandsins sé mjög áberandi. Það valdi miklum óvinsældum ESB innan einstakra landa.
Varðandi orkupakkann, sagði Jón Baldvin ekkert vandamál fyrir okkur Íslendinga að segja nei við innleiðingu hans. Það þýði ekki endalok EES-samstarfsins, það séu mjög mörg fordæmi um slíkar undanþágur.
Það er vel hægt að segja nei, án þess að það hafi miklar afleiðingar, segir hann.