Félag atvinnurekenda fagnar frumvarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, sem heimilar innflutning á fersku kjöti, eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk.
„Með samþykkt frumvarpsins lýkur loks um áratugarlöngum brotum íslenskra stjórnvalda á EES-samningnum. Frumvarpið tryggir hag neytenda af auknu vöruúrvali og samkeppni, innflutningsfyrirtækja af því að tæknilegar viðskiptahindranir séu afnumdar og íslenskra matvælaútflutningsfyrirtækja, einkum á sviði sjávarafurða, af því að réttur þeirra til útflutnings til EES-ríkja án heilbrigðiseftirlits á landamærum sé áfram tryggður,“ segir í yfirlýsingu frá félaginu.
„Íslensk stjórnvöld áttu engan annan kost en að afnema bannið við innflutningi á ferskvöru. Með því að fara ekki að dómum EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar Íslands væri gróflega brotið gegn réttaröryggi íslenskra fyrirtækja og gífurlegir hagsmunir íslenskra matvælaútflytjenda settir í uppnám,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.