Svissneska fjárfestingarfélagið DC Renewable Energy AG greiðir rúmlega níu milljarða króna fyrir 12,7 prósenta hlut í HS Orku. Hluti greiðslunnar, eða um einn milljarður, er árangurstengdur afkomu HS Orku.
Miðað við kaupverðið er markaðsvirði HS Orku í dag því um 72 milljarðar króna, segir í Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins í dag.
Félagið keypti hlutinn í fyrra mánuði, en það er í eigu Bretans Edmunds Truell sem hefur lengi unnið að því að koma á sæstreng á milli Íslands og Bretlands. Markaðurinn hefur heimildir fyrir því að svissneska félagið hafi gert umtalsvert hærra tilboð í hlutinn en aðrir fjárfestar sem áhugasamir eru.
Samkvæmt heimildum Viljans hefur Edmund Truell áhuga á því að auka enn við hlut sinn í HS Orku og raunar hefur hann gert nokkrar misheppnaðar tilraunir á undanförnum árum. Honum gæti hins vegar fljótlega orðið að ósk sinni, því stærsti hluthafi HS Orku, kanadíska orkufyrirtækið Innergex, hefur boðið til sölu tæplega 54 prósenta hlut sinn í fyrirtækinu.
Því gæti sú staða komið upp, að stærstu eigendur HS Orku vilji koma að lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands, en þannig gæti raforkufyrirtækið fengið aðgang að miklu stærra markaði og þannig fengið mun hærra verð fyrir raforkuna sem það selur.