Kirkjuráð samþykkti á fundi 11. desember s.l., tillögu biskups Íslands, um að koma skyldi upp dagsetri fyrir heimilislausa. Fjárveiting til verkefnisins liggur fyrir á fjárhagsáætlun þjóðkirkjunnar fyrir árið 2020. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Þjóðkirkjunnar í dag.
Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, skipaði fyrir nokkru starfshóp sem kanna skyldi möguleika á því að kirkjan kæmi á fót dagsþjónustu fyrir fólk sem er á götunni.
Til að byrja með verði þjónustan einungis fyrir konur
Þennan hóp skipa Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni, sr. Hjalti Jón Sverrisson og Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar. Sr. Hreinn S. Hákonarson, fyrrum fangaprestur, er hópnum til ráðuneytis.
Starfshópurinn skilaði tillögum til biskups ásamt kostnaðaráætlun. Hópurinn lagði til að í fyrstu yrði opnað dagsetur fyrir heimilislausar konur og yrði það opið alla daga ársins frá 11.00-17.00. Boðið yrði upp á heita máltíð í hádeginu og kaffihressingu síðdegis.
Kirkjuráðið samþykkti að vinna málið áfram og er það enn í vinnslu hjá starfshópnum, en ekki fengust upplýsingar um það hvenær er fyrirhugað að þjónustan opni.