Kirkjan hefur alltaf tekið þátt í sorg og gleði

Sr. Vigfús Bjarni Albertsson.

Sr. Vigfús Bjarni Albertsson, sjúkrahússprestur, fagnar aukinni aðsókn fólks í kirkjur landsins. Hann kveðst hafa talað í fjölmörgum kirkjum á aðventunni og þær séu alltaf fullar af fólki.

„Fólk sækir í tónlistina, fegurðina, umræðuna um sorgina, boðskapinn, friðinn og samfélagið,“ segir hann.

Vigfús segir merkilegt hvað fámennur minnihluti fólks geti pirrað sig yfir kirkjunni og veltir því upp hvort hlutur hennar hefði átt að vera stærri í hundrað ára afmæli fullveldisins.

„Kannski hefði hennar hlutur átt að vera stærri í afmæli fullveldisins, hugtök eins og manngildi og menntun, hvatning og von í 100 ára sögu? Kirkjan hefur alltaf tekið þátt í sorg og gleði. Margrét Danadrottning er kirkjulistakona og Danir eru stoltir yfir því, við hefðum átt að bjóða henni í kirkju eins og afa hennar forðum, þá hefði henni orðið minna kalt.“

„Þeir sem segja í okkar samfélagi að kirkjunnar séu tómar hafa ekki skoðað staðreyndir. Hin andlega þörf lifir, gúrúar og svitahof, sjálfshjálparnámskeið, -ismar eiga ekkert í Jesúbarnið sem fæddist í Betlehem. Guð er að koma í heiminn sem barn, það er stórkostlegur boðskapur,“ segir hann.

„Hvaða þjónusta önnur en kirkjan er reiðubúin að vera með fólki allan sólarhringinn fyrir utan sjúkrahús og löggæslu?“ spyr Sr. Vigfús Bjarni ennfremur.