„Klassískt og alþjóðlegt hatursorðræðumyndmál“ í ræðu Braga Páls

Bragi Páll Sigurðarson, rithöfundur, hélt ræðu á Austurvelli sl. laugardag. Mynd/Youtube

„Fyrst enginn annar vinstrisinnaður vinur segir það: mér finnst þetta ekki góð ræða. Ég skil alveg reiðina á bakvið hana en ég held að orðræða af þessu tagi hafi engin góð áhrif, bara vond,“ segir Jón Hallur Stefánsson, rithöfundur og útvarpsmaður, á facebook í dag.

Jón Hallur Stefánsson.

Umrædda ræðu flutti Bragi Páll Sigurðarson rithöfundur á mótmælafundinum Lýðræði ekki auðræði – Auðlindirnar aftur í okkar hendur á Austurvelli þann 7. desember sl., og birtist hún í heild sinni á Vísi.

Í ræðunni kallaði Bragi Páll Sjálfstæðisflokkinn „barnaníðingaflokk“ og „krabbamein“.

Jón Hallur heldur áfram í færslunni og segir:

„Gagnrýnin umræða um Sjálfstæðisflokkinn hefur ríka og sívaxandi tilhneigingu til að vera ekki gagnrýnin umræða heldur óhamin útrás fyrir neikvæðar tilfinningar og um leið tilraun til að særa með öllum tiltækum ráðum, í þessari ræðu er mikilvægum pólitískum spurningum til dæmis hnýtt saman við persónulegar svívirðingar, háðsglósur um tertubakstur og upprifjun á einkamálum sem ekkert erindi eiga í opinbera umræðu.“

Skinheilagt og hvítglóandi hatur í stað gagnrýnnar hugsunar

„Öll gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn verður þannig að eitraðri blöndu af hatursorðræðu og heiftyrðum einsog þeim sem látin eru flakka í verstu hjónarifrildum. Tilætluð áhrif á andstæðinga flokksins geta geta varla verð önnur en að staðfesta og magna upp það skinheilaga og hvítglóandi hatur á þessum stjórnmálaflokki sem sett er í öndvegi í stað gagnrýnnar hugsunar. Það er einsog menn séu í keppni í að ganga sem lengst í blammeringum, orðið „barnaníðingaflokkur“ hefur margoft heyrst, hér er að auki hamrað á orðinu „krabbamein“ – sem hefur líka heyrst áður, ekki bara í umræðu um Sjálfstæðisflokkinn heldur er þetta, einsog menn ættu að kannast við, klassískt og alþjóðlegt hatursorðræðumyndmál.“

„Viðbrögð meðlima og ráðamanna Sjálfstæðisflokksins geta ekki orðið önnur en þau að brynja sig gegn gagnrýninni einsog hún leggur sig. Fyrir þeim getur þetta ekki verið annað en óvinatal, fjandmenn að berja sér á brjóst, orðunum er ekki beint til þeirra heldur aðeins og eingöngu til jábræðra á vinstri kantinum. Það er alltof auðvelt að hrista af sér gagnrýni af þessu tagi, eitraða gagnrýni, hún er „ekki svara verð“ og henni er í raun og veru ekki svarandi.“

„Þetta er hvorki fallegt né vænlegt til árangurs“

„En er þessi orðræða þá til þess fallin að fylkja öllu „góðu“ fólki saman gegn Sjálfstæðisflokknum, einsog hlýtur eiginlega að vera tilgangurinn? Ég held ekki. Stjórnmálaumræða á Íslandi hefur tilhneigingu til að snúast alfarið um Sjálfstæðisflokkinn, á jákvæðum eða neikvæðum nótum, og ég þarf engan auglýsingasálfræðing til að upplýsa mig um hvaða áhrif það hafi. Púkinn á fjósbitanum, þið munið. Hættum þessu. Þetta er hvorki fallegt né vænlegt til árangurs.“