Bára Halldórsdóttir, sem hefur stigið fram og viðurkennt að hafa hljóðritað samtöl stjórnmálamanna sem sátu saman á Klaustri nýverið, var í dag boðuð til þinghalds fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur næstkomandi mánudag vegna gagnaöflunar.
Lárentínus Kristjánsson héraðsdómari vísar í bréfinu til Báru til beiðni Reimars Péturssonar lögmanns, fyrir hönd fjögurra þingmanna Miðflokksins, um vitnaleiðslur og öflun sýnilegra sönnunargagna fyrir dómi vegna atvika sem urðu 20. nóvember sl. á veitingastaðnum Klaustri við Kirkjutorg.
Beiðnin byggir á ákvæðum XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála án þess að mál hafi verið höfðað.
„Meðfylgjandi beiðni verður ekki skilin öðruvísi en svo að dómsmál kunni að verða höfðað á hendur þér í kjölfar umbeðinnar gagnaöflunar,“ segir í bréfinu til Báru og af þeim sökum er hún boðuð til þinghalds í Héraðsdómi Reykjavíkur næstkomandi mánudag kl. 15.15.
Fjölmargir einstaklingar hafa þegar lýst því yfir, að þeir vilji leggja Báru lið fjárhagslega til þess að standa straum af mögulegri málsókn.