Inga Sæland: Kommúnískt heilbrigðiskerfi hættulegt sjúklingum

Inga Sæland, þingmaður og formaður Flokks fólksins.

Velferð sjúklinga Landspítalans er stefnt í hættu með kommúnískri stefnu innan kerfisins, var á meðal þess sem Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, lét hafa eftir sér í síðdegisútvarpi Útvarps Sögu í dag, þar sem hún var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Hún benti m.a. á að verið sé að flytja sjúklinga til útlanda í læknisaðgerðir og í sumum tilfellum sé læknir sjúklingsins með í för, þetta sé afar dýrt og algerlega óverjandi

” þetta er þrisvar sinnum dýrara heldur en að gera þetta hér heima, en það er eins og þessi kommúníska stefna sem rekin er leynt og ljóst þarna, þessi miðstýring sem virðist allt um lykjandi að það eigi bara alls ekki að semja til dæmis við Klíníkina og fleiri slíka aðila“, var á meðal þess sem Inga sagði í þættinum.

Ráðherra reyndi að þagga niður í læknum

Deilur hafa risið vegna ástands á ýmsum deildum Landspítalans, biðlista eftir aðgerðum og kostnaðarsamra flutninga sjúklinga til útlanda í stað þess að láta framkvæma aðgerðir á þeim hjá einkaaðilum hérlendis. Á fundi Læknaráðs í gær sauð upp úr, þegar heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, gagnrýndi læknana harkalega fyrir að upplýsa um ástandið, m.a. á bráðamótttöku spítalans, og kallaði það að „tala spítalann niður.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

 „Það væri eiginlega brot á læknaeiðnum sem ég sór þegar ég varð læknir að ekki benda á það ástand sem blasir við,“ sagði Ragnar Freyr Ingvarsson læknir þá, sem hafði gert málefni bráðamóttöku Landspítalans að umfjöllunarefni, en Fréttablaðið greindi frá þessu í dag.

Ekki hægt að kenna niðurskurði um

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, lagði einnig orð í belg á Twitter í kvöld, vegna umræðu undanfarinna daga um ástandið í heilbrgiðismálunum. Þar benti hann á að fjárframlög hins opinbera til málaflokksins hefðu aukist jafnt og þétt undanfarin ár, og hafnaði fullyrðingum um niðurskurð í kerfinu. Á grafinu má sjá að tvöfalt meira fé er varið til heilbrigðismála nú en fyrir tíu árum.