Kosið um þjóðaratkvæðagreiðslu um orkumál hjá Pírötum

Píratar kjósa nú um stefnu um þjóðaratkvæðagreiðslu um orkumál.

Ályktun um stefnu um þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi orkumálastefnu ESB, ásamt greinargerð, er nú til umræðu og í atkvæðagreiðslu í kosningakerfi Pírata. Opnað var fyrir umræður þann 2. ágúst sl., en atkvæðagreiðsla hófst í fyrradag, og stendur til 16. ágúst nk.

Samkvæmt heimildum Viljans hefur atkvæðagreiðslan lítið verið kynnt, en þegar þessi frétt er rituð hafa einungis 20 manns greitt atkvæði. Líflegar umræður eru þó í gangi inni á síðunni, ásamt röksemdafærslum, og sitt sýnist hverjum.

„Ég persónulega held að þetta mál sé sérstaklega óheppilegt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrir hið allra fyrsta vil ég hafa skýrar reglur um hvernig megi skjóta málum í slíka kosningu, en ekki að það sé happa-glappa eftir því hvenær það hentar valdhöfum hverju sinni, það fyrirkomulag er mjög viðkvæmt fyrir lýðskrumi og hræðsluáróðri,“ er á meðal þess sem Alexandra Briem, varaborgarfulltrúi Pírata segir. Fleiri lýsa yfir áhyggjum af því að orkupakki 3 sé orðinn að lýðskrumsmáli í líkingu við BREXIT-málið í Bretlandi.

„Píratalegra verður það ekki“

„Greiði atkvæði með. Lýðræði og upplýsingar. Píratalegra verður það ekki. Ef þetta er samþykkt hér (líklegt) og svo tillaga okkar þingpíratanna á Alþingi um að þetta taki ekki gildi nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu (ólíklegt) þá munu áhrifin vera þau, eftir upplýsta umræðu um málið (já það tókst með Icesave) að þessi 3OP er ekki hættulegur og hræðsluáróður Miðflokksmanna og Orkunnar Okkar verður öllum ljós. Það væri gott fyrir lýðræðið og vel upplýstar ákvarðanir,“ er á meðal þess sem Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata hefur að segja.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, kemur með tillögu að endurbótum á ályktuninni og röksemdafærslu gegn henni, en kveðst munu virða niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Undir með honum tekur Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.

Til að fylgjast með umræðunum og kosningunni er hægt að fara inn á þennan hlekk.