Krefst aukafundar vegna ávirðinga forseta borgarstjórnar

Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúi Miðflokksins.

Miðflokkurinn krafðist þess í borgarráði Reykjavíkur í dag að forsætisnefnd boði til aukafundar vegna ávirðinga forseta borgarstjórnar Dóru Bjartar Guðjónsdóttur í garð varaborgarfulltrúa Miðflokksins Baldurs Borgþórssonar.

Eins og Viljinn skýrði frá í gær, lagði Baldur fram tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur sl. þriðjudag um að laun og greiðslur borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa yrðu birt opinberlega, líkt og gert er á vef Alþingis.

Þessu mótmælti Dóra Björt á samfélagsmiðlum í gær og sakaði Baldur um að stela sínu máli, hann stæði uppi sem „einhver kyndilberi gagnsæis, maðurinn sem reyndi að stela okkar máli, – samhliða þeim hreinu rangindum að við hefðum fellt tillögu um gagnsæi launa, við sem ákváðum sjálf að birta yfirlit yfir öll laun fleiri mánuðum áður en þessi tillaga kom fram!“

Baldur sagði í greinargerð sem hann lagði fyrir borgarráð í dag, að fjölmargir hafi vakið athygli á þessum ummælum forseta borgarstjórnar og krefst þess að þau séu dregin til baka með sómasamlegum hætti.

Baldur minnir á að hann hafi hafið máls á birtingu launa á fundi borgarráðs í byrjun nóvember og þá hafi hann fengið þau svör að engin þörf væri á slíku, þar sem hver sem væri gæti reiknað þetta út eftir leiðbeiningum á heimasíðu Reykjavíkurborgar og svo hefði verið um árabil.

„Í kjölfarið urðu fjörlegar umræður sem enduðu með því að undirritaður setti fram áform sín um að leggja fram tillögu um málið á komandi vikum, enda undirritaður birt sinn eiginn launaseðil opinberlega þann 31.okt, eða 2 dögum fyrr. Engar athugasemdir voru gerðar við þetta.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, og forseti borgarstjórnar Reykjavíkur.

Að teknu tilliti til ofangreindra atriða er ljóst að allar ávirðingar Dóru Bjartar Guðjónsdóttur í garð undirritaðs eru ósannar,“ segir Baldur í bókun sinni. „Undirritaður vill ekki una því að að sitja undir ávirðingum af þessu tagi og fer því fram á að forseti borgarstjórnar Dóra Björt Guðjónsdóttir dragi þær með öllu til baka með formlegri yfirlýsingu sem birt verði á sama vettvangi og þær voru settar fram og samhliða send fjölmiðlum, enda dreifing upphaflegrar yfirlýsingar komin svo víða að ekki dugir minna til. Þar með mun málinu vera lokið af hálfu undirritaðs, enda sáttafús að eðlisfari. Undirritaður fer fram á að þegar verði boðað til aukafundar hjá forsætisnefnd vegna málsins. Eðli málsins samkvæmt fer undirritaður fram á að forseti borgarstjórnar Dóra Björt Guðjónsdóttir sem jafnframt er formaður forsætisnefndar víki sæti við umfjöllun nefndarinnar um málið,“ segir hann ennfremur.

Baldur lagði jafnframt til á fundi borgarráðs í morgun, að framvegis verði allir fundir borgarráðs sem og forsætisnefndar hljóðritaðir í heild sinni og upptökur geymdar. Þetta verði gert til þess að borgarfulltrúar sem og aðrir er fundina sitja geti borið af sér mögulegar ávirðingar og rangmæli, en þó helst til að koma með öllu í veg fyrir að slíkt eigi sér stað.