Kristjáni Þór virðist hafa tekist hið ómögulega

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Kristjáni Þór Júlíussyni landbúnaðarráðherra virðist hafa tekist hið ómögulega, að sameina heildsala, kaupmenn, bændur og neytendur í andstöðu við frumvarp sem hann hefur lagt fram á Alþingi um breytingu á búvörulögum og tollalögum.

„Undirritaðir aðilar eru sammála um að það frumvarp sem nú liggur fyrir um breytingu á búvörulögum og tollalögum, 382. mál, eigi ekki að samþykkja í núverandi mynd,“ segir í tilkynningu frá fjölmörgum hagsmunaaðilum um efni yfirlýsingar sem send hefur verið Kristjáni Þór Júlíussyni, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, og atvinnuveganefnd Alþingis.

Frumvarpið og umsagnir flestra þeirra samtaka sem rita undir yfirlýsinguna má sjá hér.

Í yfirlýsingunni segir jafnframt að nauðsynlegt sé að vinna málið áfram og finna því heppilegri farveg, m.a. til  að bregðast við mögulegum frávikum sem alltaf kunni að koma upp í búvöruframleiðslu, sem háð sé veðurfari og öðrum ytri aðstæðum og að þeir sem undirritaðir hana vilji gjarnan koma að þeirri vinnu. Undir þetta skrifa:

Bændasamtök Íslands
Félag atvinnurekenda
Félag eggjabænda
Félag kjúklingabænda
Félag svínabænda
Landssamband kúabænda
Landssamband sauðfjárbænda
Neytendasamtökin
Samband garðyrkjubænda
Samtök iðnaðarins
Sölufélag garðyrkjumanna“