Gagnrýni: Kolfinna Von Arnardóttir fjallar um bókina Læknishúsið eftir Bjarna Bjarnason.
Læknishúsið byrjar í rólegum takti, með léttri sögukynningu á ættaróðalinu á Eyrarbakka, þeim sem þar bjuggu á árum áður og þeim sem eru nýflutt inn. Steinar, sem nýbúinn er að kaupa húsið af frændfólki eftir að hafa fengið hluta þess í arf, flytur nú inn með konu sinni sem er ófrísk af tvíburum. Konan hans er engin önnur en fjármálaráðherra Íslands.
Hefst þar atburðarás, sem vekur upp löngu gleymdar æskuminningar Steinars, eitthvað sem hann sjálfur var ekki endilega að sækjast eftir. Þar sem annað þeirra hjóna er fjármálaráðherra fer enn frekari atburðarrás af stað sem kemur þeim hjónum í ýmiskonar óæskilega stöðu. Á sama tíma er eins og húsið eigi sér sjálfstætt líf.
Margar aðrar sögur
Sagan var einnig um margt annað en ættaróðalið. Snert er við ýmsum málefnum í bókinni á meðan saga húsins er sögð; draugasaga, börn og bældar minningar, þöggun fortíðarinnar, mikilvægi skuldbindingar og trausts í ástarsamböndum, málefni flóttamanna, líf og einangrun opinberra aðila og jafnvel einelti á vinnustað.
Í flestum ættum eru það yfirleitt afreks- og gleðisögur sem verða langlífar. Þó er harmleik, skapbresti eða vonbrigði oft að finna þar skammt undan. Það er eðlilegt þegar kafað er í sögur formæðra og feðra að einstaklingar leiti eftir því að finna þar mannlega þætti. Þetta gerir mönnum kleift að tengja betur við fortíðina. En stundum finnum við þar skuggahliðar sem við hefðum helst ekki viljað vita af.
Kannski jafnvel þannig að það hefði betur verið geymt í óvissu þess sem liðið er.
Ég mæli með að þú, lesandi góður, sækir þér eintak af Læknishúsinu og öðlist þína persónulegu upplifun af sögunni. Það eru ekki margar sögur sem hafa þau áhrif að vera nánast klæðskerasniðnar að lesandanum sjálfum, en þessi bók nær því. Hún kafar djúpt í ræturnar og þar hefur hver einstaklingur sinn upplifunarheim og endurspeglun.
Niðurstaða:
Góð saga með kraftmiklum endi. Sjarminn sem liggur í hinu ósagða og kallar á speglun lesandans. Verður þannig að klæðskerasniðinni sögu fyrir hvern og einn.