Lán verði í boði á „köldum svæðum“ á landsbyggðinni

Ásmundur Einar Daðason undirritaði breytingar á reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðs á Drangsnesi í Steingrímsfirði í morgun.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, undirritaði í morgun breytingar á reglugerð sem gerir það að verkum að sveitarfélög, einstaklingar og óhagnaðardrifin félög á landsbyggðinni muni fljótlega geta tekið lán hjá Íbúðalánasjóði til húsnæðisuppbyggingar á stöðum þar sem önnur fjármögnun er ekki í boði. Undirritunin fór fram á Drangsnesi í Steingrímsfirði en Vestfirðir eru einmitt dæmi um landsvæði þar sem markaðsbrestur veldur því að ekki er byggt íbúðarhúsnæði þrátt fyrir mikla eftirspurn.

Þetta kemur fram á vef félagsmálaráðuneytisins. Komið hefur fram að bæta þurfi aðgengi að lánsfjármagni á landsbyggðinni til að bregðast við þeim húsnæðisvanda og stöðnun í húsbyggingum sem þar ríkir. Fjármögnunin er háð því að um nýbyggingar sé að ræða og er aðeins í boði á þeim stöðum þar sem opinber húsnæðisáætlun, staðfest af Íbúðalánasjóði, sýnir að skortur sé á húsnæði af því tagi sem byggja á. Einnig er skilyrði fyrir því að geta fengið áðurnefnd lán að lántaki sýni fram á að hann fái ekki lán hjá öðrum lánastofnunum eða fái einungis lán á verulega hærri kjörum en almennt bjóðast á öðrum markaðssvæðum.

Í reglugerðinni kemur fram að markmið lánveitinganna sé að tryggja eðlilega fjölgun íbúða á þessum svæðum, aukið húsnæðisöryggi óháð búsetu auk þess að stuðla að heilbrigðum húsnæðismarkaði og viðskiptum með íbúðarhúsnæði.

„Það liggur fyrir að á mörgum stöðum hefur ekkert eða mjög lítið verið byggt um árabil, þrátt fyrir að eftirspurnin sé mikil og greiðslugeta hjá íbúum svæðisins góð. Sveitarfélögin hafa sérstaklega bent á skort á viðeigandi leiguhúsnæði. Með reglugerðarbreytingunni, sem ég undirritaði í morgun, verður hægt að fá lán til byggingar nýs húsnæðis á svæðum sem glíma við þetta sérstaka misvægi í byggingarkostnaði og markaðsverði. Það mun styðja við atvinnuuppbyggingu á mörgum stöðum og hefur reynslan af sambærilegum lánveitingum á Norðurlöndum verið góð. Ég hlakka til að sjá fólk komast í viðeigandi húsnæði sem starfar og býr á þeim svæðum sem lánaflokkurinn tekur til,“ segir Ásmundur Einar í tilkynningu frá ráðuneytinu.