Landsvirkjun semur um 25 MW til nýs gagnavers á Blönduósi

Forstjórarnir Björn Brynjúlfsson og Hörður Arnarson innsigla samninginn.

Landsvirkjun og gagnaversfyrirtækið Etix Everywhere Iceland ehf., dótturfélag Etix Everywhere Borealis, hafa undirritað rafmagnssamning um afhendingu 25 MW til nýs gagnavers á Blönduósi. Gagnaverið hefur hafið rekstur og standa þegar yfir framkvæmdir við stækkun þess. Gagnaverið á Blönduósi verður fyrsti stórnotandi rafmagns sem tengist beint við tengivirki Landsnets við Laxárvatn í Blönduósbæ.

„Eftirspurn eftir orku Landsvirkjunar, sem unnin er úr endurnýjanlegum orkugjöfum, fer áfram vaxandi og með þessum samningi hefur enn eitt öflugt fyrirtækið bæst í hóp alþjóðlegra viðskiptavina okkar. Samningurinn staðfestir samkeppnishæfni Íslands á alþjóðlegum raforkumörkuðum, rennir fleiri stoðum undir reksturinn og styður við fjölbreytta uppbyggingu iðnaðar á Íslandi,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun verður fyrirtækið þriðji viðskiptavinur Landsvirkjunar í ört vaxandi gagnaversiðnaði hér á landi ef samningar ganga eftir. Umsvif Etix Everywhere Borealis hafa aukist hratt undanfarin misseri og verður gagnaverið á Blönduósi stærsta gagnaver sem fyrirtækið kemur að á Íslandi, en að auki rekur fyrirtækið gagnaver í Reykjanesbæ.

Áætlað er að tölvur í gagnaverum í beinni eða óbeinni eigu Etix Everywhere Borealis verði um 30 þúsund talsins eftir þessa stækkun, en nýju gagnaverin eru svokölluð „High Performance Computing“ ver, þar sem mikil reiknivinnsla er fyrir hendi.

Endurnýjanlegar orkuauðlindir, samkeppnishæf kjör og íslenskt veðurfar eiga þátt í að skapa hagstæðar aðstæður fyrir öflugan gagnaversiðnað á Íslandi. Kalt og stöðugt loftslag dregur úr kostnaði við kælingu á tölvubúnaði sem hitnar mikið við notkun. Loftkælingin kemur í veg fyrir að eyða þurfi mikilli orku í að kæla búnaðinn og því er hagkvæmara að knýja hann á Íslandi en víða annars staðar í heiminum.

Orkan sem samningurinn nær til verður afhent úr núverandi aflstöðvakerfi Landsvirkjunar. Á þessu ári tók Landsvirkjun að fullu í notkun tvær nýjar aflstöðvar, Þeistareykjastöð, nýja jarðvarmastöð á Norðausturlandi og Búrfellsstöð II, neðanjarðarvatnsaflsstöð á Suðurlandi. Landsvirkjun rekur nú 15 vatnsaflsstöðvar, þrjár jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur. Samningurinn er háður tilteknum skilyrðum til þess að öðlast fullnaðargildi.

Björn Brynjúlfsson, forstjóri Etix Everywhere Borealis, fagnar tíðindunum: „Við erum í uppbyggingarfasa á nýrri kynslóð gagnavera sem nýta íslenskar umhverfisaðstæður og sérþekkingu Etix Everywhere í hönnun og smíði gagnaverslausna. Uppbyggingin á Blönduósi er markvisst skref í að minnka umhverfisfótspor viðskiptavina okkar og samningsorkan gerir okkur kleift að fara í umtalsverðar stækkanir þar.

Etix Everywhere Iceland ehf. er dótturfélag og í 100% eigu Etix Everywhere Borealis ehf., sem er í meirihlutaeigu Etix Everywhere Ltd. sem er alþjóðlegt þekkingarfyrirtæki og starfrækir gagnaver og þjónustu vegna þeirra um allan heim. Gagnaver Etix á Íslandi bjóða erlendum viðskiptavinum upp á umhverfisvænar lausnir mitt á milli markaða í Bandaríkjunum og meginlandi Evrópu.