Bókagagnrýni: Stefán Pálsson skrifar um bókina Skúli fótgeti, eftir Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur, JPV, 2018.
Hvað gera sagnfræðingar? Ég hygg að í hugum ansi margra sé aðalhlutverk þeirra að grafa upp skjöl úr rykföllnum pappírsbunkum sem hafa að geyma æsilegar nýjar upplýsingar. Staðalmyndin af glæstasta fræðiafrekinu er sagnfræðingurinn sem plægir sig í gegnum óhemjumagn heimilda og uppgötvar þar bréfið sem byltir fyrri hugmyndum okkar um atburðarás fortíðarinnar. Dálítið eins og Indiana Jones að finna dýrgripi, bara án þess að vera með mannætuþjóðflokk á hælunum og leggja musterið forna í rúst.
Við sagnfræðingarnir erum sjálf dálítið skotin í þessari hugmynd. Viljum finna skjalið sem öllu breytir. Og að sumu leyti er það auðveldara hér á Íslandi en annars staðar. Við erum svo fá og svo margt sem á eftir að frumrannsaka.
En auðvitað er sagnfræði miklu flóknari og margslungnari. Við fáum í sífellu nýjar og nýjar bækur um Sesar, Napóleon og Stalín án þess að höfundar þeirra hafi grafið upp nýjar og óþekktar heimildir. Markmiðið er ekki að slá fram nýjum staðreyndum, heldur að segja sögu og túlka fyrirliggjandi heimildir á nýjan hátt og skapa þannig nýjan skilning og þekkingu.
Ég kláraði í morgun að lesa bók Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur um Skúla fógeta. Hún er fantagóð sem vænta mátti. Þórunn hefur allt annan frásagnarstíl en aðrir íslenskir sagnfræðingar, sem ræðst nokkuð af því að hún er langbesti rithöfundurinn í okkar hópi. Enginn annar hefur viðlíka vald á stíl eða ræður við slíkar sviðsetningar. Þannig er það bara.
Þórunn vinnur með fyrri rannsóknir á sögu Skúla, Innréttinganna og átjándu aldar. Hún þykist ekki vera að grafa upp nýjar og sláandi upplýsingar. Lesanda sem vill fara djúpt í tækniatriði varðandi frumiðnvæðinguna eða verslunarmál tímabilsins er kurteislega bent á að lesa bara Hrefnu Róbertsdóttur, Gísla Gunnarsson eða einhverja hinna rannsóknanna. Þórunn er að segja sögu, draga upp mynd af persónu og reyna að skilja hvað rak hana áfram og hvaða tilfinningar hún hefur haft í brjósti.
Þetta er sálfræðilegt verk og skrifað af djúpum skilningi, bæði á tíðaranda átjándu aldar og sammannlegum tilfinningum frá öllum tímum. Skúli fógeti er hörkugóð bók og eiginlega eini gallinn að hún hafi ekki verið hundrað síðum lengri.
Stefán Pálsson.