Jafnast upptökur af illmælgi um samþingmenn, orð sem eru látin falla á vínbar við uppljóstranir Wikileaks, sem eiga heima í fjölmiðlum? Ögmundur Jónasson, f.v. dómsmálaráðherra, efast um það, meira að segja mjög svo.
Ögmundur skrifar í pistli sínum í Morgunblaðinu og á vefsvæði sínu í dag um Stasi, Wikileaks og heykvíslarnar.
Hann segir:
„Eitt er víst að engum hefur þetta gert gott. Hvorki þeim sem töluðu né hinum sem um var rætt. En hvað með samfélagið almennt? Verður það betra fyrir vikið? Ég held ekki. Ákveðnir þættir kunna vissulega að eiga heima í fréttum, meint viðskipti með opinberar mannaráðningar nefni ég, en um það hefði mátt spyrja af öðru tilefni.
En fyrr en varði var allur sóðaskapurinn kominn á fjalir leikhúsanna fyrir fullum sal. Allir að klappa og skemmta sér. Minnir óneitanlega á gapastokkinn. Sagan kennir að fátt hafi verið vinsælla til skemmtihalds í tímans rás en opinber niðurlæging. Hámarkið var náttúrlega aftaka. Brauð og leikar í Róm, sveðja á háls í Saudi Arabíu. Slíkt tíðkast enn.
Aldrei hefur reynst erfitt að finna böðla, alltaf nóg af fulltrúum heilagleikans. Klígjugjarnt getur verið að horfa á þá.
Minn spádómur er þessi: Ef við leggjum ekki heykvíslarnar fljótlega frá okkur þá er réttarríkið farið og í þess stað boðið upp á brauð og leika.
Það eru ekki góð skipti,“ segir Ögmundur Jónasson.