Lénastríð viðskiptavefja: Keldann og Fréttabaðið vísa þvers og kruss

Það er gömul saga og ný að tekist sé á í heimi fjölmiðla og viðskipta, en eitthvert athyglisverðasta samkeppnisstríð sem sögur fara af á sér nú stað í netheimum milli tveggja viðskiptavefja hér á landi.

Keldan hefur notið mikilla vinsælda sem viðskiptavefur undanfarin ár og nýta sér fjölmargir áskriftarmöguleika síðunnar. Nú hefur Markaðurinn, viðskiptablað Fréttablaðsins, stofnað sinn eigin viðskiptavef, markadurinn.is og ætlar sér greinilega að róa á sömu mið en bjóða auk þess upp á eigin fréttir úr heimi viðskiptanna.

Semsé alvöru keppinautur kominn til leiks.

Þessu virðast þeir Keldumenn ekki hafa tekið þegjandi. Þeir brugðu því á það ráð að skrá sig fyrir léninu markadurin.is (með einu n-i) og láta þá slóð vísa beint á tengil Keldunnar. Þeir sem slá því fyrir slysni inn vitlaust lén á Markaðinn geta því átt von á að lenda hjá samkeppnisaðilanum.

Eins og gerist í öllum alvöru stríðum, dó Markaðs og Fréttablaðsfólk ekki ráðalaust þegar hér var komið við sögu. Á dögunum festi Fréttablaðið sér tvö lén, annars vegar keld.is og hins vegar keldann.is — augljóslega í sama tilgangi.

Keldumenn hafa nú svarað fyrir sig og fest sér lénið frettabadid.is og áhugamenn um viðskiptafréttir og netlén almennt halda í sér andanum meðan næsti leikur er hugsaður. Aðilar máls hafa örugglega ekki sagt sitt síðasta orð, en hvernig væri nú annars að þeir slíðruðu bara sverðin og skiptust á lénum?

Eiga ekki öll dýrin í skóginum að vera vinir?