Lengsta samfellda tímabil raunverðshækkana íbúða

Raunverð íbúða hefur hækkað í níu ár samfellt.

Vísbendingar eru um heilbrigðari þróun raunverðs íbúða en verið hefur, auk þess sem að ekki hefur áður verið jafn langt tímabil samfelldra hækkana á raunverði íbúða. Frá þessu er greint í samantekt Hagsjár Landsbanka Íslands.

Í hagsjá Landsbanka Íslands var greint frá því að raunverð íbúða hækkaði lítillega milli ára í fyrra og fylgdi því mjög náið hækkun á almennu verðlagi. Ef litið er til þróunar raunverðs íbúða frá upphafi mælinga má sjá að verðið hefur nú hækkað samfellt milli ára síðustu níu ár sem er lengsta tímabil raunverðshækkana sem gögn ná til.

Síðast þegar raunverðshækkanir mældust verulega miklar á einu ári fylgdi lækkun í kjölfarið nokkrum árum síðar, en það hefur ekki gerst enn sem komið er. Raunverð hækkaði nokkuð mikið, eða alls um 21,6%, milli ára árið 2017 og ekki hefur komið til lækkunar í kjölfarið líkt og gerðist eftir mikla hækkun árið 2000 og eins árið 2005.

Það eru því vísbendingar um að staðan sé önnur núna, og til þess að átta sig betur á henni getur reynst gagnlegt að skoða breytingar á íbúðaverði í samhengi við þær stærðir sem stýra kaupgetu fólks, meðal annars kaupmáttarstigið í landinu.

Kaupmáttur launa jókst milli ára í fyrra og það meira en sem nemur hækkun á raunverði íbúða. Ef litið er til þróunar á síðustu tveimur árum þá hefur kaupmáttur og raunverð hækkað með sama hraða, hvor um sig um 6% á tveimur árum. Það er vísbending um heilbrigðari þróun fasteignaverðs en síðustu ár þar á undan. 

Þróunin hefur hins vegar ekki alltaf verið þessi. Ef litið er til lengri tímabila hefur raunverð íbúða almennt hækkað hraðar en kaupmáttur, en þó háð sveiflum.