Leyfir „eitruðu“ gyðingahatri að grassera í Verkamannaflokknum

Jeremy Corbyn, formaður breska Verkamannaflokksins. Mynd/Wikipedia

Erkibiskupinn af Kantaraborg hefur gefið út stuðningsyfirlýsingu, að beiðni æðsta rabbína Breta, í tengslum við vaxandi gyðingahatur. Þar sagði hann m.a. að breskir gyðingar finni nú fyrir „djúpstæðum ótta“. Frá þessu greinir breski miðillinn The Telegraph í dag.

Eftir að æðsti rabbíninn varaði við því að þjóðarsálin væri í húfi, ef Jeremy Corbyn myndi sigra þingkosningarnar í Bretlandi, sagði Justin Welby að ákvörðun hans um að gefa út „jafn fordæmalausa yfirlýsingu“ væri til að „vekja athygli á djúpri tilfinningu óöryggis og ótta sem breskir gyðingar upplifa“.

Æðsti rabbíninn, Efraim Mirvis, hefur sakað Corbyn um að leyfa „eitruðu“ gyðingahatri að „skjóta rótum í Verkamannaflokknum“.

Í fyrsta skipti sem æðsti rabbíni tekur opinbera afstöðu í kosningabaráttu

Enginn æðsti rabbíni hefur áður tekið opinbera afstöðu í kosningabaráttu, en Mirvis rabbíni sagði að hann ætti engra annarra kosta völ eftir framgöngu Corbyn, og óttast um „siðferðisleg gildi landsins“ ef hann yrði forsætisráðherra.

Barónessa Julia Neuberger, rabbíni frá Crossbench, tók undir með aðalrabbínanum og sagðist skynja kvíða í gyðingasamfélaginu. Neuberger sagði að vaxandi gyðingaandúð innan Verkamannaflokksins hefði verið „þróun sem hafi átt sér stað.“

„Síðan Jeremy Corbyn varð leiðtogi Verkamannaflokksins hefur verið ískyggilegur andgyðinglegur tónn í mörgu sem þar hafi átt sér stað og viljaleysi til að taka á því“, sagði hún.

„Það hefur verið tregða í efstu lögum flokksins og fólk í gyðingasamfélaginu hefur séð þá tregðu og hugsað „hvað er um að vera? Stór stjórnmálaflokkur – hvað er að gerast? Af hverju eru þeir ekki að stöðva það?“

Corbyn forðaðist að svara yfirlýsingunni en fordæmdi gyðingahatur

Yfirlýsingin kemur í dag, daginn sem Verkamannaflokknum er ætlað að kynna stefnu sína trú- og kynþáttamálefnum. Í henni mun flokkurinn gera grein fyrir áformum um hvað börnum verði kennt um óréttlæti og hlutverk Breska heimsveldisins, sem hluta af aðalnámskrá.

Corbyn forðaðist að svara yfirlýsingunni beinlínis, en sagði í dag: „Gyðingahatur í hvaða mynd sem er er viðurstyggilegt og rangt“.

„Þetta er samfélagsmein, illska sem óx í Evrópu á þriðja áratugnum og leiddi að lokum til Helfararinnar,“ sagði hann fundargestum í Bernie Grant Arts Center í London. „Það er ekkert pláss fyrir gyðingahatur í neinni mynd. Undir verkalýðsstjórn verður það ekki þolað í neinu formi. Ég vil að það sé skýrt.“