Lifir velferðarkerfi Norðurlandanna fjölmenningarstefnuna af?

Mynd tekin með nætursjónauka úr þyrlu yfir Ermarsundi af flóttamönnum á bát að reyna að komast til Bretlands.

Greinin birtist í The New York Times og verður lauslega endursögð hér.

Til að byrja með vildu bæjaryfirlvöld í Filipstad í Svíþjóð líta á flóttamenn sem tækifæri. Járnnámurnar og vélaverksmiðjan fyrir skógarhögg höfðu lokað. Fólk flutti á brott og bærinn var að breytast í draugabæ. Möguleikinn á að hleypa lífi í hann aftur virtist í augsýn.

Sumarið 2015 fluttist fólk að í stórum stíl frá stríðssvæðum heimsins, Sýrlandi, Sómalíu og Írak. Þau skyldu setjast að í tómum húsunum, læra sænsku og taka að sér umönnunarstörf fyrir aldraða Svía. Þau áttu að verða skattgreiðendur sem myndu hjálpa að fjármagna fyrirmyndar félagslegt kerfi Svíþjóðar.

Útlendingaandúð ógnar núverandi kerfi

Nú fjórum árum síðar eftir flutningana, eru sífellt fleiri Svíar farnir að líta á flóttamennina sem byrði á opinberum sjóðum. Sumir tala um árás á „sænska arfleifð og menningu“. Með öðrum orðum, hvíta, kristna og kunnuglega. Andúð á innflytjendum ógnar núverandi fyrirkomulagi á félagslega kerfinu í landinu. „Fólki langar ekki að borga skatta til að halda uppi þeim sem vinna ekki“, segir Urban Petterson, 62ja ára meðlimur í bæjarstjórn Filipstad. „Níutíu prósent flóttamannanna leggja ekkert til samfélagsins. Þau eiga eftir að vera á kerfinu alla ævi og það er stórt vandamál.“

Í hagkerfum heimsins, þar sem er vaxandi reiði yfir ójöfnuði, hefur Svíþjóð lengi verið til fyrirmyndar þeim sem vilja reyna að sefa þesskonar ólgu. Félagskerfi Norðurlanda var hannað til að draga úr efnahagslegum áföllum einstaklinga og auka möguleika þeirra sem fyrir þeim verða, eða alast upp í vanefnum – með menntun, heilbrigðisþjónustu, barneignaleyfi, lífeyris- og bótakerfum.

Máttarstólpar kerfisins eru skattgreiðendur

En viðgangur þessa kerfa byggir á tveimur máttarstólpum – vilja fólks til að borga hæstu skatta í heimi og skilningnum á því að allir sem vettlingi geta valdið þurfi að vinna. Ríkið sér til þess að allir séu nógu vel menntaðir til að vinna flókin og vel borguð störf í tækni og framleiðslu í fremstu röð. Skörp bylgja innflytjenda – sú stærsta í Evrópu, hefur lagt prófstein á þjóðfélagið, en fjöldinn hefur risið úr 11% í 19% á sl. 20 árum og 160 þúsund manns sóttu um hæli í Svíþjóð árið 2015. Margir þeirra eru ómenntaðir og tala ekki sænsku – og eiga mjög erfitt að fá vinnu. Kannanir sýna að Svíar eru farnir að gera sér grein fyrir að allt þetta fólk muni þurfa stuðning til margra ára – og eru farnir að hneykslast á kostnaðinum og krefjast skilyrða í kerfinu.

„Fólk er tilbúið að sýna samstöðu með þeim sem eru svipuð og þau sjálf, en ekki með þeim sem eru öðruvísi“, er haft eftir Carl Melin, hjá Futurion, rannsóknarstofnun í stefnumörkun í Stokkhólmi. Birtingarmynd þess þykir sjást í velgengni Svíþjóðardemókratanna, nýjum stjórnmálaflokki sem á rætur nýnasistahreyfingu. Flokkurinn hefur hlotið fylgi samhliða vaxandi andúð á fjölmenningu, óánægju með staðnandi hagkerfið og niðurskurð undanfarið í velferðarkerfinu. Fólki ofbýður fjölmenning í smábæjum eins og Filipstad þar sem múslímakonur með slæður aka nú barnavögnum bæjarins.

„Þau tala ekki málið“, kvartar Pettersson, sem styður Svíþjóðardemókrata, „Þau eru annarrar trúar og hafa annan lífsstíl. Munurinn er of mikill, það er erfiðara að búa í návígi. Það er áhugavert að hitta útlendinga í smástund, en það er erfiðara að búa saman.“ Hann vill senda fólkið aftur heim, fremur en að sóa almannafé í vonlausar aðgerðir til að fá þau til að aðlagast.

Tálsýn að fólkið geti farið strax að vinna

Svíþjóð hefur orðstír fyrir að bjóða stríðsflóttafólk velkomið, og eyðir mestu allra ríkja í þróunaraðstoð. Þegar ríkið byrjaði að flytja flóttamenn til Filipstad árið 2012 fékk sveitarstjórnin loforð um stuðning fyrstu tvö árin. Eftir það skyldi sveitin taka við, en að þeim tíma liðnum héldu menn að flestir yrðu farnir að vinna.

„Það var tálsýn“, að sögn Hannesar Fellsman, sem sér um menntun og vinnuendurhæfingu til að undirbúa flóttamennina fyrir atvinnulífið. Fyrsta holl af Sýrlendingum hafi verið vel menntað fólk sem hafi fljótlega náð árangri, en þeir sem komu seinna voru lítið eða ekkert menntuð og þörfnuðust að auki mikillar sálfræðiaðstoðar vegna áfalla. Fimmtungur íbúa bæjarins eru nú útlendingar. Af þeim 750 sem eru á vinnualdri eru 500 aðeins með grunnskólamenntun og 200 ólæsir.

Að undirbúa fólk með litla kunnáttu hratt fyrir vinnumarkaðinn er áskorun. Í Svíþjóð er það nánast útilokað, þar sem hagkerfið er flókið og hverfist um vel borguð störf sem þarfnast mikillar hæfni og menntunar. Sumir benda á að það þurfi einfaldlega að skapa umhverfi þar sem fleiri láglaunastörf eins og þrif og barnapössun sem þarfnast lítillar menntunar þrífist, en sú umræða fær verkalýðsfélögin til að bera tennurnar.

Aðeins 3,8% atvinnuleysi er á meðal Svía, á meðan það er 15% á meðal aðfluttra, eða um helmingur allra atvinnulausra. Svíþjóðardemókratarnir nota þessar upplýsingar til að segja að fólk flykkist til Svíþjóðar til að liggja uppi á kerfinu.

En viðtöl við flóttamenn sýna aðra mynd. Margir hafa lagt ótrúlega hluti á sig til að komast til Svíþjóðar og leggja hart að sér við að læra sænsku á meðan þau bíða eftir að hælisumsókn þeirra verði afgreidd. Jamali, 19 ára frá Afganistan, ferðast í um 2 tíma á dag til að komast á sænskunámskeið og langar að verða rafvirki. Einn strætóbílstjórinn neitar að taka hann með og stundum er hrópað „farðu heim“ þar sem hann bíður eftir vagninum.

Tímabundið vandamál – ástæða til bjartsýni

Margir eru þó bjartsýnir og telja vandamálið vera tímabundið, og alls enga ógn við velferðarkerfið. „Þegar við höfum náð árangri með þetta fólk, verður það gríðarlega dýrmætt fyrir Svíþjóð“, segir starfsmaður Filipstad. Kostnaður vegna þeirra sé ekki nema um 1% af landsframleiðslunni, eða um jafn mikið og landið greiðir í þróunaraðstoð.

En ýmsar afleiðingar fylgja þessum breytingum, annað hvort þurfa skattgreiðendur að bera kostnaðinn, eða að til verður lagskipt þjóðfélag, þar sem hvítir, innfæddir Svíar munu hafa góð störf og þægilegt líf á meðan brúnir innflytjendur búa við skort og atvinnuleysi í gettóum. Álagið á samfélagið kemur fram í óánægju með bænaköll úr moskunni, margra vikna bið eftir tannlæknaþjónustu, erfiðleikum í leik- og barnaskólum vegna barna sem tala ekki sænsku – en mest á fimmföldun opinberra útgjalda sveitarfélagsins samhliða niðurskurði á þjónustu.

Vaxandi óánægja skattgreiðenda grefur undan velferðarkerfinu á tímum magninnflytjendastefnu. Ef of margir byrja að þiggja allt fyrir ekkert – sérstaklega þeir sem skera sig úr – þá glatast trúin á kerfið. „Áður fyrr fengum við eitthvað fyrir skattana okkar, nú erum við ekki að fá það sem við borguðum fyrir.“