Lilja: „Ofbeldismenn hafa ekki dagskrárvald í íslensku samfélagi“

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

„Ég hefði auðvitað viljað að viðbrögðin hefðu verið önnur og að þeir tækju ábyrgð á því sem þeir hafa sagt. Og að þeir myndu iðrast og að það væri meiri einlægni í því,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Rætt var við Lilju í Kastljósi í kvöld um viðbrögð hennar við umræðum þingmannanna sex á Klausturbar á dögunum, þar sem meðal annars voru höfð uppi óviðurkvæmileg ummæli um hana af hálfu manna sem eru vinir hennar og fv. samherjar til margra ára.

Lilja segist upplifa samtal þingmannanna sem ofbeldi og árás.

„Ég upplifi þetta sem algjört ofbeldi. Þeir eru ofbeldismenn. Ég segi bara að þetta er alveg skýrt í minum huga. Ofbeldismenn hafa ekki dagskrárvald í íslensku samfélagi.“

Hún segir að hún hafi fengið gríðarlega mikinn stuðning frá þúsundum landsmanna og fólki sé greinilega brugðið. Henni sé brugðið og hún hafi átt erfitt með svefn. Hún sé beygð, en hún ætli sér ekki að brotna.

„En ég vil líka að það sé alveg skýrt, þetta er óboðlegt, þetta er óafsakanlegt og við viljum ekki að íslensku samfélagi sé stýrt af svona fólki,“ segir Lilja.

Hún tók sérstaklega fram að enginn miðflokksmanna sem þarna voru hafi haft samband við sig, en einhverjir hafi sent skilaboð. 

Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni hér.