Lilja skaut yfir markið með ofbeldistali sínu: Sigmundur kemur alltaf aftur

Róbert Trausti Árnason fv fréttastjóri.

„Einhverjir almannatenglar hafa reynt að halda því fram í dag að Lilja Alfreðsdóttir hafi náð að „slá Miðflokkinn niður“ í sjónvarpsviðtali sem RÚV flutti í gær. Þetta er mikill misskilningur. Annað hvort eru þeir sem álykta með þessum hætti ekki nægilega vel að sér eða þá eru þeir að reyna að koma inn tilteknum viðhorfum hjá fólki. Lilja kom vel fyrir í sjónvarpsviðtalinu enda virtist sýningin hafa verið æfð og sviðsett af mikilli kostgæfni undir stjórn fagmanna. Um það er allt gott að segja. Stjórnmálamenn eiga að nýta sér ráðgjafa og mikilvægt er að velja sér rétta PR-fólkið til verka.“

Þetta skrifar Róbert Trausti Árnason fréttastjóri Hringbrautar á vef sjónvarpsstöðvarinnar í kvöld. Róbert Trausti, sem er stjórnmálafræðingur að mennt, er margreyndur í stjórnsýslunni, hann var bæði forsetaritari í tíð Ólafs Ragnars Grímssonar og sendiherra í utanríkisþjónustunni.

Óhætt er að segja, að Róbert Trausti hafi aðra sýn á framgöngu Lilju Alfreðsdóttur en margir sem hafa tjáð sig um málið eftir viðtal Kastljóssins við hana í gærkvöldi.

Lilja Alfreðsdóttir í Kastljósinu.

Beittu þeir ofbeldi?

Róbert Trausti segir engan deila um að þingmennirnir sex á Klausturbar hafi sýnt dómgreindarleysi. „Á þeim var sorakjaftur og ætla má að eitthvað hafi farið úrskeiðis í uppeldi þeirra frá öndverðu. En beittu þeir ofbeldi? Samkvæmt almennum íslenskum málskilningi er ofbeldi annað og miklu meira en dónalegt orðbragð og fylliríisröfl miðaldra fólks.

Lilja Alfreðsdóttir skaut yfir markið með ofbeldistali sínu og yfirlýsingu um að hún gæti aldrei fyrirgefið það sem sagt var. Aldrei að segja aldrei er stundum bent á. Ef Lilja ætlar að vera áfram í pólitík þá er betra að gefa ekki svona afgerandi yfirlýsingar. Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði til dæmis aldrei að vinna í ríkisstjórn undir forystu sósíalista. En gerir það samt og þurfti að éta stórt ofan í sig.,“ segir fréttastjórinn.

„Lilja hefur ótakmarkaðan metnað og hún mun gera hvað sem er til að ná lengra á sviði stjórnmálanna. Þennan metnað hefur hún frá föður sínum, Alfreð Þorsteinssyni fyrrum borgarfulltrúa Framsóknar, manninum sem ber höfuðábyrgð á fjárfestingarhneykslinu sem hús Orkuveitu Reykjavíkur er og kostar borgarbúa marga milljarða. Alfreð var alltaf til í að semja um allt fyrir völd. Lilja hefur verið talin geta orðið sáttasemjari milli Framsóknar og Miðflokks en gamla framsóknarmenn dreymir um að sameina þessa systurflokka. En í gær slökkti hún á þeirri von. Það getur ekki orðið sátt um Lilju eftir að hún kallaði forystu Miðflokksins „ofbeldismenn“. Þar með fór sú von.

Hefði Lilja viljað verða stór og sýna að hún væri stærri en bardónarnir, þá hefði hún átt að vorkenna þeim, aumkuna sig yfir þá og bjóða sættir. Þá hefði hún sýnt stórmennsku. En það gerði hún ekki. Það hefur enginn aðili þessa máls sýnt stórmennsku. Það vantar alveg. Ógæfufólkið á barnum situr fast í drullupolli og aðrir hafa valið að henda sér ofan í pyttinn til þeirra. Nú síðast Lilja Alfreðsdóttir,“ skrifar hann.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Sigmundur kemur alltaf aftur

Og Róbert Trausti heldur áfram:

„Í dag hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lýst því yfir hve mjög honum sárni að vera kallaður ofbeldismaður. Hann hefur grenjað við öxlina á þjóðinni út af því. Nú keppist þetta fólk allt saman við að reyna að láta kjósendur vorkenna sér. Í gær var það Lilja og Sigmundur í dag. Hver mun grenja fyrir okkur á morgun? Þessi keppni mun halda áfram og enginn þarf að láta sig dreymna um að Sigmundur Davíð hætti, dragi sig í hlé eða láta slá sig út af laginu. Hann hrökklaðist úr embætti forsætisráðherra vegna Panamahneykslisins og flestir héldu þá að hann væri búinn að vera. En hann kom aftur, stofnaði flokk og náði 10.9% fylgi í síðustu kosningum, fékk meira fylgi en Framsóknarflokkurinn sjálfur eftir hundraðára puð!

Í ljósi þess að hafa lifað Panamadæmið af, þá mun Sigmundur Davíð hrista Klausturmálið af sér. Hann mun vinna þessa mælsku-og grátkeppni við Lilju og aðra. Sigmundur mun segja eins og Marteinn Mosdal:

„Ég kem alltaf aftur ……..,“ segir Róbert Trausti að lokum um leið og hann bendir á að Framsóknarflokkurinn græði ekkert á hruni Miðflokksins samkvæmt nýjum könnunum. Þess í stað hafi það leitað til Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar.

„Hvers vegna rataði fylgið ekki heim til Framsóknar? Það er verðugt rannsóknarefni fyrir framsóknarmenn. Eru fleiri rúnir trausti en barfólkið?“