Linda P. óskar eftir stuðningi landsmanna: Kjósum Erlu áfram í Miss World

Linda Pétursdóttir athafnakona.

„Það góða við Erlu er hversu jarðbundin hún er, að mínu mati. Það er einn margra kosta auk þess er hún virkilega klár og auðsjánalega er stúlkan glæsileg. Hefur svo sem ekki langt að sækja það en móðir hennar er Guðrún Möller, Fegurðardrottning Íslands 1982. Erla hefur margt til brunns að bera og taldi ég hana vera af­burðafull­trúa lands og þjóðar sem gæti sann­ar­lega sómt sér vel sem and­lit og talsmaður Miss World-fyr­ir­tæk­is­ins.“

Þetta segir Linda Pétursdóttir afhafnakona og fv. alheimsfegurðardrottning í samtali við Viljann, en hún vill hvetja Íslendinga til að aðstoða Erlu Alexöndru Ólafsdóttur til að komast áfram í netkosningu í Miss World keppninni sem stendur nú yfir í Kína.

Úrslit í keppninni verða kunngjörð á laugardag, en frestur til að kjósa í netkosningunni rennur út nú á föstudag. Hægt er að kjósa HÉR.

„Fyrst og fremst er verið að velja fulltrúa fyrir þetta alþjóðlega fyrirtæki en aðaláhersla starf­semi Miss World hef­ur verið á góðgerðar­störf og hafa sam­tök­in „Beauty with a purpose“ sem Ju­lia Morley eig­andi og forstjóri Miss World stofnaði árið 1972, safnað yfir 1 millj­arði sterl­ings­punda og styrkt bág­stödd börn um all­an heim og Hófi (Hólmfríður Karlsdóttir), Unnur Birna (Vilhjálmsdóttir) og ég unnum allar þrjár við góðgerðarstarfsemina, árin okkar,“ seg­ir Linda.

Erla Alexandra Ólafsdóttir á góðgerðarkvöldi Miss World í vikunni.

Að sögn Lindu hefur Erla verið ytra í ríflega hálfan mánuð og nú styttist í stóru stundina.

„Hún sagði mér að henni þætti svo gaman, það er mikið að upplifa í Kína og margar nýjar vinkonur sem hún hefur kynnst, að hana langaði ekki heim strax! Hún lætur ekkert stöðva sig, var valin í hóp 18 stúlkna til að fara að spila golf, í upptökur fyrir sjónvarp, og hún sagðist aldrei nokkurn tímann hafa spilað golf en lét það nú ekki aftra sér. Það segir mér mikið um keppnisskapið í henni. Svo sagði hún mér að golfkúlan hafi óvart farið rakleiðis í myndatökumanninn, en henni var víst fljótt fyrirgefið,“ segir Linda í léttum dúr.

En hvernig finnst henni að vera aftur búin að tengjast keppninni, nú sem stjórnandi á Íslandi?

„Það kom reynd­ar afar óvænt upp í hend­urn­ar á mér og ekki eitt­hvað sem ég hafði séð fyr­ir, hvað þá haft á dag­skrá enda er ég á kafi í há­skóla­námi. Miss World fyrirtækið hafið samband við mig og bað um aðstoð og eðli málsins sam­kvæmt hef ég nokkuð góða þekk­ingu á þessu öllu saman, hef verið beggja vegna borðsins, sem vinn­ings­hafi og auk þess hef ég starfað sem alþjóðleg­ur dóm­ari fyr­ir keppn­ina til margra ára. Þannig að mér fannst bara alveg sjálfsagt að aðstoða með þetta í ár og svo sé ég bara til hvort ég hafi tíma til að sinna þessu áfram.

Hómfríður Karlsdóttir, leikskólakennari, var valin Miss World árið 1985.

Mér finnst gaman að geta stutt og aðstoðað ungar stúlkur sem hafa áhuga og það sem til þarf, til þess að upplifa þetta ævintýri.“

Og Linda vill senda Íslendingum ákall: „Íslendingar eru vanir að standa saman og því vil ég biðja sem flesta að fara og kjósa fulltrúa okkar, en sú sem vinnur netkosninguna kemst beint áfram í úrslit en svo er annað í höndum dómnefndar. Áfram Ísland!“