Loftslagið: Hinn breiði meðalvegur á milli ofstækis og afneitunar

Ungmenni í San Fransisco í loftslagsverkfalli að fyrirmynd Gretu Thunberg. Mynd/Wikipedia.
Michael Schellenberger.

Umhverfisblaðamenn og ýmsir talsmenn loftslagsógnarinnar hafa á undanförnum vikum birt heimsendaspár vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Bill McKibben gaf í skyn að gróðureldar í Ástralíu hefðu gert „Kóalabirni útdauða virknilega séð“. Útrýmingaruppreisnin (e. Extinction Rebellion, XR) sagði „milljarðar munu deyja“ og „Líf á jörðinni er að deyja.“ Miðillinn Vice fullyrti að „hrun siðmenningarinnar gæti þegar verið hafið.“

Um þetta skrifaði rithöfundurinn Michael Schellenberger í Forbes í gær, en hann hefur verið kosinn „Umhverfishetja“ af Time Magazine og hlotið Grænu bókarverðlaunin. Hann skrifar oft í New York Times og Washington Post. Viljinn þýddi.

Greta Thunberg.

Fáir hafa undirstrikað loftslagsógnina meira en Greta Thunberg, loftslagsaktívisti námsmanna, ásamt flutningsmanni Nýja græna samkomulagsins (e. Green New Deal) á bandaríska þinginu, Alexandria Ocasio-Cortez. Hún sagði: „Heimurinn mun farast eftir 12 ár ef við tökum ekki á loftlagsbreytingum.“ Thunberg segir í nýju bókinni sinni, „Í kringum árið 2030 munum við verða í þeirri stöðu að hrinda af stað óafturkræfri og óstjórnlegri keðjuverkun sem mun leiða til endaloka siðmenningarinnar eins og við þekkjum hana. “

Hamfaraspárnar hafa alvarlegar afleiðingar

Stundum koma heimsendaspár frá vísindamönnum. „Það er erfitt að sjá hvernig við gætum séð fyrir milljarði manna, eða jafnvel helmingnum af þeim,“ ef jörðin hitnar um fjórar gráður, sagði vísindamaður fyrr á þessu ári. „Möguleikinn á matarskorti eykst,“ sagði annar. Ef sjávarborð hækkar eins mikið og Loftslagsnefnd Sameinuðu Þjóðanna (IPCC) spáði, sagði annar vísindamaður: „Verður það óviðráðanlegt vandamál.“

Heimsendafullyrðingar sem þessar hafa afleiðingar. Hópur breskra sálfræðinga sagði í september sl. að börn þjáist í auknum mæli af loftslagskvíða. Í október var aðgerðarsinni XR, sem var stofnuð árið 2018 til að vekja athygli á loftslagsógninni með „borgaralegri óhlýðni“, laminn í neðanjarðarlestarstöð í London af reiðum farþegum. Í síðustu viku sagði stofnandi XR að þjóðarmorð eins og Helförin væri „að endurtaka sig, á stærri skala og beint fyrir framan okkur“ vegna loftslagsbreytinga.

Loftslagsbreytingar er mál sem er mér hugleikið og ég hef tileinkað umtalsverðum hluta lífs míns til að fást við það. Ég hef verið pólitískt virkur vegna þess í yfir 20 ár og hef rannsakað og skrifað um það í 17 ár. Undanfarin fjögur ár hafa samtökin mín, Framfarir í umhverfismálum (e. Environmental Progress), unnið með nokkrum af fremstu loftslagsvísindamönnum heims, til að koma í veg fyrir að kolefnislosun aukist. Fram að þessu höfum við hjálpað til við að koma í veg fyrir losunaraukningu jafngildri því að bæta 24 milljónum bíla við umferðina.

Blaðamönnum er skylt að vera heiðarlegir í umfjöllunum

Mér er líka annt um að vera rétt upplýstur, og hef á undanförnum mánuðum leiðrétt rangar hamfaraumfjallanir fjölmiðla um eldsvoða í Amazon og Kaliforníu, en ranglega hefur verið sagt frá því að þeir séu fyrst og fremst vegna loftslagsbreytinga.

Blaðamönnum og aðgerðarsinnum er skylt að lýsa umhverfisvandamálum á heiðarlegan og nákvæman hátt, jafnvel þó þeir óttist að það muni draga úr lestri eða vinsældum hjá almenningi. Það eru vísbendingar um að hamfaraumræðan um loftslagsbreytingar falli um sjálfa sig, vegna þess að hún er fráhrindandi og klýfur fólk í hópa. Að ýkja loftslagsbreytingar afvegaleiðir okkur frá öðrum mikilvægum málum sem við höfum meiri stjórn á.

Ég þarf að segja þetta hreint út, vegna þess að ég vil að málefnið sé tekið alvarlega, en ekki hafnað með því að flokka það sem „loftslagsafneitun“ eða „loftslagsfrestun“ – eins og gjarnan er gert við fólk sem er ekki tilbúið að taka undir ofstækið.

Við skulum þá skoða það hvort vísindin styðji það sem verið er að segja.

Enginn vísindalegur grundvöllur fyrir hamfarafullyrðingum

Í fyrsta lagi hefur engin trúverðug vísindastofnun sagt að loftslagsbreytingar ógni siðmenningunni, og enn síður að þær útrými mannkyninu. „Börnin okkar munu deyja á næstu tíu til 20 árum.“ Hver er vísindalegi grundvöllurinn fyrir þessum fullyrðingum? ” spurði Andrew Neil, hjá Breska ríkisútvarpinu, auðsjáanlega vandræðalegan talsmann XR í síðasta mánuði.

„Þessar fullyrðingar hafa verið gagnrýndar,“ sagði hún. „Það eru sumir vísindamenn sem eru sammála og sumir sem segja að það sé ekki satt. En aðalmálið er að þessi dauðsföll munu eiga sér stað.“

„En flestir vísindamenn eru ekki sammála þessu,“ sagði Neil. „Ég skoðaði skýrslur IPCC og sá enga tilvísun til milljarða manna og barna sem myndu deyja eftir 20 ár. Hvernig myndu þeir deyja?“

„Fjöldafólksflutningar eiga sér nú þegar stað vegna langvarandi þurrka, sérstaklega í Suður-Asíu. Það eru brunar í Indónesíu, Amazon, Síberíu, Norðurskautssvæðinu, “sagði hún.

Vísindin gróflega mistúlkuð – öðrum áhrifaþáttum sleppt

En með því að segja það, mistúlkaði talsmaður XR vísindin gróflega. „Það eru sterkar vísbendingar um að fólk hafi flosnað upp vegna hamfara,“ sagði IPCC, „en takmarkaðar vísbendingar um að loftslagsbreytingar eða hækkun sjávarborðs sé bein orsök þess“.

Hvað með „fjöldafólksflutninga“? „Meirihluti fólksflutninga eiga sér stað innan landamæra viðkomandi ríkja,“ segir IPCC.

Alexandria Ocasio-Cortez.

Það er ekki eins og loftslagið skipti ekki máli. En það eru aðrir þættir vega þyngra en loftslagsbreytingar. Fyrr á þessu ári komust vísindamenn að því að loftslag „hefur haft áhrif á skipulögð vopnuð átök innan landa. Hins vegar eru aðrir áhrifaþættir, svo sem hæg efnahagsþróun og veikir innviðir, taldir hafa meiri áhrif.“

Í janúar sl., eftir að loftslagsvísindamenn gagnrýndu Ocasio-Cortez fyrir að segja að heiminum myndi farast eftir 12 ár, sagði talsmaður hennar „Við getum rætt um hártoganir, hvort um sé að ræða tilvist eða áföll.“ Hann bætti við „Við erum að sjá fullt af [loftslags] vandamálum sem þegar hafa áhrif á líf fólks.“

Dauðsföll vegna náttúruhamfara dregist saman

Þetta síðasta kann að vera rétt, en það er líka rétt að hagvöxtur hefur gert okkur sterkari, og þess vegna hafa dauðsföll vegna náttúruhamfara dregist saman um 99,7% frá því að þau náðu hámarki árið 1931, þegar 3,7 milljónir manna létust af völdum náttúruhamfara. Árið 2018 létust aðeins 11.000, og samdrátturinn í dauðsföllum átti sér stað á tímabili þegar mannfjöldinn fjórfaldaðist.

Hvað með hækkun yfirborðs sjávar? IPCC áætlar að sjávarmál gæti hækkað um 0,6 metra til næstu aldamóta. Hljómar það eins og heimsendir eða „stjórnlaust“?

Þriðjungur Hollands er undir sjávarmáli og sum svæði eru sjö metra undir sjávarmáli. Það væri hægt að andmæla þessu með því að segja að Holland sé ríkt land á meðan t.d. Bangladesh sé fátækt. En Holland lagaði sig að þessum breytingum fyrir 400 árum. Tæknin hefur batnað talsvert síðan þá.

Uppskera veltur aðallega á efnahagslegri framþróun

Hvað með fullyrðingar um uppskerubrest, hungursneyð og dauða fjölda fólks? Það er vísindaskáldskapur, ekki vísindi. Menn framleiða nógan mat fyrir tíu milljarða manna, eða 25% meira en við þurfum, og vísindastofnanir spá fyrir um aukningu á matvælaframleiðslu.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) spáir því að uppskera aukist um 30% fyrir árið 2050. Gert er ráð fyrir að fátækustu heimshlutarnir, eins og Afríka sunnan Sahara, muni sjá aukningu um 80 til 90%.

Enginn er að segja að loftslagsbreytingar geti ekki haft neikvæð áhrif á uppskeru. En það þarf að setja það í samhengi. Hveitiuppskera jókst um 100 til 300% um allan heim síðan á sjöunda áratugnum, en 30 spálíkön reikna út að uppskera gæti lækkað um 6% fyrir hverja gráðu hitastigshækkunar.

Uppskera í framtíðinni veltur miklu meira á því hvort fátækar þjóðir fái aðgang að vinnuvélum, áveitu og áburði en loftslagsbreytingum, segir FAO.

Loftslagsbreytingar hafa lítil áhrif á hagvöxt

Allt þetta hjálpar til við að útskýra hvers vegna IPCC reiknar með að loftslagsbreytingar muni hafa lítil áhrif á hagvöxt. Árið 2100 áætlar IPCC að hagkerfi heimsins verði 300 til 500% stærri en í dag. Bæði IPCC og Yale hagfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn, William Nordhaus, spá því að hlýnun á milli 2,5°C og 4°C gæti dregið úr vergri landsframleiðslu (VLF) um 2% til 5% á sama tímabili.

Þýðir þetta þá að við ættum ekki að hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum? Alls ekki.

Ein af ástæðunum fyrir því að ég hef áhuga á loftslagsbreytingum er vegna þess að ég hef áhyggjur af áhrifunum sem það gæti haft á tegundir í útrýmingarhættu. Loftslagsbreytingar geta ógnað einni milljón tegunda á heimsvísu, og helmingi allra spendýra, skriðdýra og froskdýra á ýmsum stöðum eins og Albertine Rift í Mið-Afríku, heimili fjallagórillanna.

Það hjálpar ekki tegundum í útrýmingarhættu að einblína á loftslagið

En við erum ekki að „að setja eigið líf í hættu“ með útdauða, eins og Elísabet Kolbert fullyrti í bók sinni, Sjötti útdauðinn. Eins hörmuleg og útrýming dýra er, ógnar hún ekki siðmenningu mannanna. Ef við viljum bjarga tegundum í útrýmingarhættu verðum við að gera það vegna þess að okkur þykir vænt um dýralíf af andlegum, siðferðilegum eða fagurfræðilegum ástæðum, en ekki til að lifa af sjálf.

Að ýkja ógnina og gefa til kynna að loftslagsbreytingar séu mikilvægari en eyðilegging búsvæða hjálpar ekki til.

Kóalabjörn.

Skógareldar í Ástralíu eru ekki að valda útdauða Kóalabjarna, eins og Bill McKibben hélt fram. Helsta vísindastofnunin sem fylgist með þessu, Alþjóðasamband náttúruverndar, eða IUCN, skráir Kóalabirni sem „viðkvæma“, sem er einu stigi neðar en „í útrýmingarhættu“, tveimur stigum neðar en „í alvarlegri útrýmingarhættu,“ og þremur stigum neðar en „útdauð“ í náttúrunni.

Ættum við að hafa áhyggjur af Kóalabjörnum? Algjörlega! Þetta eru ótrúleg dýr og fjöldi þeirra hefur farið niður í um 300 þúsund einstaklinga. En Kóalabirnir standa frammi fyrir mun stærri ógnum eins og eyðileggingu búsvæða, sjúkdómum, sinubruna og innrás fjandsamlegra dýrategunda.

Hugsum frekar með þessum hætti: Loftslagið gæti breyst verulega – og við gætum samt bjargað Kóalabjörnum. Hins vegar gæti loftslagið aðeins breyst lítillega – og Kóalabirnir gætu samt dáið út.

Með því að einblína á loftslagið dreifir það athygli okkar frá öðrum ógnum við Kóalabirni og tækifærum til að vernda þá, eins og t.d. að vernda og útvíkka búsvæði þeirra.

Vöxtur byggða en ekki loftslagið veldur gróðurbruna

Varðandi brunana, segir einn helsti vísindamaður Ástrala, „tjón vegna eldsvoða eykst þar sem íbúabyggð hefur færst út í runnalandsvæði með tíðum brunum. Ekki er um önnur áhrif að ræða. Jafnvel þótt loftslagsbreytingar hefðu spilað hlutverk í nýlegum brunum, og við getum ekki útilokað það, væru þau áhrif á hættuna á eignabruna smávægileg miðað við hættuna sem felst í að byggja á runnasvæðum.“

Ekki eru brunarnir heldur eingöngu til komnir vegna þurrka, sem eru algengir í Ástralíu, og sérstaklega nú í ár. „Loftslagsbreytingar hafa sín áhrif“ sagði Richard Thornton frá Rannsóknarmiðstöð bruna- og náttúruhamfara í Ástralíu, „en þær eru ekki orsök brunanna.“

Hið sama á við bruna í Bandaríkjunum. Árið 2017 rannsökuðu vísindamenn 37 mismunandi landsvæði og uppgötvuðu að „mennirnir hafa ekki einungis áhrif á bruna, heldur getur viðvera þeirra haft mun meiri áhrif heldur en áhrif loftslagsins.“ Af tíu breytum sem hafa áhrif á bruna var „engin sem vó jafn þungt eins og mannlegar breytur“, svo sem húsbyggingar, eldar kveiktir af fólki og ræktun á eldiviði í skóglendi.

Loftslagsvísindamenn byrjaðir að hafna ofstækinu

Loftslagsvísindamenn eru byrjaðir að hafna ofstæki aktívista, blaðamanna og annarra vísindamanna.

„Á meðan ýmsar tegundir eru í útrýmingarhættu“, sagði Ken Caldeira hjá Stanford háskóla „ógna loftslagsbreytingar ekki útrýmingu manna … Ég vil ekki sjá okkur hvetja fólk til að breyta rétt með því að láta það trúa einhverju sem er rangt.“

Ég spurði ástralska loftslagssérfræðinginn Tom Wigley hvað honum finndist um þá fullyrðingu að loftslagsbreytingar ógni siðmenningunni. „Það angrar mig virkilega vegna þess að það er rangt,“ sagði hann. „Allt þetta unga fólk hefur verið rangt upplýst. Og að hluta til er það Gretu Thunberg að kenna. Ekki vísvitandi. En hún hefur rangt fyrir sér.“

En þurfa vísindamenn og aðgerðarsinnar ekki að ýkja til að vekja athygli almennings?

„Ég minnist þess sem [látinn loftslagsvísindamaður Stanford háskóla] Steve Schneider sagði,“ svaraði Wigley. „Hann var vanur að segja að sem vísindamenn ættum við ekki að hafa áhyggjur af því hvernig við tölum við fólk úti á götu, sem gæti þurft hvatningu til að skilja að þetta er alvarlegt vandamál. Steve skammaðist sín ekkert fyrir að tala á svo hlutdrægan hátt. Ég er ekki alveg sammála því.“

Wigley byrjaði að vinna að loftslagsvísindum í fullu starfi árið 1975 og bjó til eitt af fyrstu loftslagslíkönunum (MAGICC) árið 1987. Það er enn eitt helsta loftslagslíkanið sem er í notkun í dag.

„Þegar ég ræði við almenning,“ sagði hann, „bendi ég á ýmislegt sem gæti aukið eða dregið úr hlýnunarspám. Ég reyni alltaf að kynna báðar hliðar. “

Kröfur um að neita fátækum þjóðum um framfarir

Hluti af því sem angrar mig varðandi hamfaraorðræðu loftslagsaktívista er að henni fylgja oft kröfur um að fátækum þjóðum verði neitað um þá ódýru orkugjafa sem þær þurfa til að þróast. Ég hef komist að því að margir vísindamenn deila þessum áhyggjum mínum.

„Ef þú vilt lágmarka koldíoxíð í andrúmsloftinu fyrir árið 2070 gætirðu viljað auka brennslu kola á Indlandi í dag,“ sagði Kerry Emanuel, loftslagsvísindamaður MIT.

„Það hljómar ekki eins og það sé skynsamlegt. Kol eru hræðileg fyrir kolefnislosun. En það er með því að brenna miklu af kolum sem fátæk ríki verða auðugri, og með því að gera sig auðugri eignast þau færri börn, og færri sem brenna kolefni, þannig gætum við orðið betur sett árið 2070. “

Emanuel og Wigley segja að öfgakennd orðræðan sé að gera pólitískt samkomulag um loftslagsbreytingar erfiðara.

„Það verður að vera hægt að mætast á miðri leið, til að gera hæfilegar ráðstafanir til að draga úr áhættunni, en reyna á sama tíma að lyfta fólki upp úr fátækt og gera það sjálfbjarga,“ sagði Emanuel. „Við ættum ekki að þurfa að velja á milli þess að lyfta fólki upp úr fátækt og þess að gera eitthvað fyrir loftslagið.“

Sem betur fer er nóg pláss á hinum gullna meðalvegi á milli loftslagsofstækis og loftslagsafneitunar.