Loftslags Stalínisminn

Sænska stúlkan Greta Thunberg er þekkt fyrir að krefjast róttækra aðgerða í loftslagsmálum.

Róttækar hugmyndir umhverfissinna í loftslagsmálum, krefjast þess að almenningur beygi sig undir yfirstéttina – og þessar hugmyndir eru farnar að bora sig inn í almannarýmið.

Um þetta skrifar umhverfis- og skipulagsfræðingurinn Joel Kotkin í City Journal 25. október sl., og Viljinn þýddi.

Joel Kotkin.

Áhersla vinstrisins á loftslagsbreytingar, er dulbúin sem vísindi, og tölvulíkön eru notuð til að búa til ímyndun um fullvissu. Æ sannfærðari um hlutverk sitt sem frelsara plánetunnar, eru róttækir græningjar í vaxandi mæli með óþol gagnvart ágreiningi eða gagnrýnum spurningum um stefnuskrá sína. Hún felur í sér eins konar „mjúkan Stalínisma“, staðfastlega knúinn áfram til að umbylta samfélaginu, hvort sem fólk vill það eða ekki – og drakónísk sjónarmið þeirra hafa troðið sér inn í almannarýmið. „Lýðræði,“ ritaði greinahöfundur einn í blaðið Foreign Policy, er „stærsti óvinur plánetunnar.“

Verkalýður og miðstéttir nútímans eru efins um stefnur sem grafa undan lífsviðurværi þeirra með fjarlægum fyrirheitum. Jafnvel nú, eftir áratugi af hræðsluáróðri, efast meirihluti Bandaríkjamanna, Ástrala og jafnvel Evrópubúa um að loftslagsbreytingar muni hafa veruleg áhrif á líf þeirra. Í nýlegri könnun Sameinuðu þjóðanna hjá tíu milljón manns kom í ljós að loftslagsbreytingar voru í 16. sæti af því sem fólk hefur áhyggjur af. Flestir í þróunarlöndunum, segir Björn Lonborg, umhverfishagfræðingur, „ hafa áhyggjur af því að að börnin þeirra deyi úr sjúkdómum sem auðvelt er að lækna, að þau fái þokkalega menntun og svelti ekki til bana.“

Eins og annað fólk í hátekjulöndum, vilja flestir Bandaríkjamenn bæta umhverfið og margir, ef ekki flestir, hafa áhyggjur af hugsanlegum áhrifum loftslagsbreytinga. En hjá þeim skipar loftslagið aðeins 11. sætið af áhyggjuefnunum, á eftir heilbrigðisþjónustu og efnahagslífi, en einnig innflytjendamálum, byssueign, kvenréttindum, Hæstarétti, sköttum, tekjum og viðskiptum. Í nýlegri skoðanakönnun Harris-Harvard kom fram að þrír fimmtungar Bandaríkjamanna hafna Nýja græna samkomulaginu (e. The Green New Deal), þar á meðal þriðjungur Demókrata, og helmingur fólks undir 25 ára aldri.

Andstaða almennings við róttækar grænar stefnur

Í stuttu máli sagt, þegar fólk skilur hvaða áhrif grænar stjórnmálastefnur hafa á störf og orkuverð, verður það andsnúið þeim. Í nýlegum kosningum í Ástralíu höfnuðu kjósendur mjög ákveðið framsækinni grænni stefnuskrá, sem miðaði á íbúa í dreifbýli og jarðefnaeldsneytisiðnað landsins. Andstaðan var sérstaklega sterk á verkalýðssvæðum eins og Queensland í Ástralíu. Niðurstöðurnar í Ástralíu urðu til þess að fræga fólkið og álitsgjafar kölluðu þessa samborgara sína ólæknandi „heimska.“

Svæði háð orku og framleiðslu – svo sem Appalachia-fjöllin, Ontario, Alberta, Mið-vestrið í Bandaríkjunum og bresku Miðlöndin, hafa veitt grænum stjórnarstefnum viðspyrnu. Jafnvel í Þýskalandi er vaxandi andstaða við grænar stefnur, sem hafa sett öflugan iðnað landsins á hliðina með sívaxandi orkukostnaði. En það eru ekki bara námumenn, olíustarfsmenn og verksmiðjustarfsfólk sem hafna grænum stefnum. Frakkar sem draga fram lífið utan miðborgar Parísar, og aðrir sem búa utan skarkala borganna, eins og í Noregi og Hollandi, hafa mótmælt á götum úti.

Gulvestungar mótmæltu hækkandi eldsneytisverði. Mynd/Wikipedia

Ímyndum okkur hvað myndi gerast ef Elizabeth Warren yrði forseti Bandaríkjanna og bannaði jarðdæluþrýsting (e. fracking) á stöðum eins og í Texas, Norður-Dakóta, Ohio, Vestur-Virginíu og Pennsylvaníu. Bara í Texas, er áætlað að ein milljón starfa myndu tapast. Í heild, skv. skýrslu Viðskiptaráðs Bandaríkjanna, myndi allsherjarbann kosta 14 milljónir starfa – miklu fleiri en þær átta milljónir sem glötuðust í Kreppunni miklu. Umhverfið myndi jafnframt tapa í þessum leik – en jarðgas hefur gert meira til að draga úr kolefnislosun en öll viðleitni græningjanna.

Róttækar grænar stefnur skaða hinar vinnandi stéttir

Um allan heim hafa grænar stjórnmálastefnur skaðað verkafólk miklu meira en efnafólkið sem hampar þeim hvað ákafast. Hin herskáa Extinction Rebellion – sem nettímaritið Spiked hefur lýst sem „dauðasveit efri-millistéttarinnar“ – hefur tafið vinnandi fólk í Bretlandi á leið til vinnu í tilraun til að „bjarga jörðinni“, og hefur áunnið sér meiri reiði og fyrirlitningu, en stuðning, frá vinnandi fólki. Þrátt fyrir að fjölmiðlar reyni að tefla græningjum fram sem hetjum af jaðrinum, eru þeir sprottnir úr fræðasamfélagi elítunnar, óhagnaðardrifnum félagasamtökum, fjölmiðlum og fyrirtækjum. Hin áhrifamikla ritgerð, Takmörkun hagvaxtar (e. Limits To Growth), sem kom út árið 1972 hjá Rómarklúbbinum, var studd af meiriháttar hagsmunum fyrirtækja undir forystu Aurelio Peccei hjá Fiat. Langtímasýn höfundanna, er byggð á hugmyndinni um að hratt gangi á auðlindir jarðarinnar, og það verði að takmarka vöxt, sérstaklega í þróuðum löndum.

Meðlimir Extinction Rebellion hindra fólk við að sinna störfum sínum. Mynd/Wikipedia

Þrátt fyrir brestina var tuttugustu aldar sósíalismi þó vaxtarmiðaður, og í meginatriðum til að auka hag verkalýðsins. Aftur á móti leitast græni sósíalisminn meðvitað við að draga úr horfum meðalfjölskyldunnar, þar sem velmegun muni losa meiri gróðurhúsalofttegundir. Sumir vandlætamenn, svo sem George Monbiot hjá breska blaðinu Guardian, halda því fram að efnahagslegur samdráttur sé besta leiðin til að draga úr kolefnislosun, jafnvel þó að það valdi því að fólk að missi vinnuna og heimilið.

Drakónísk aðhaldssemi í loftslagsmálum ógnar ekki störfum „hreinríkra (e. clean rich)“ sem græða á fjárfestingum í vind- og sólarorku, viðskiptum með kolefniskvóta og annarri starfsemi græna orkugeirans. Sumir gamaldags vinstri menn, eins og breski Marxista-sagnfræðingurinn James Heartfield, hefur bent á að grænn kapítalismi sé ný uppfinning elítunnar til að kúga hinar vinnandi stéttir, með því að skapa gerviskort á öllu, frá orku til heimilis og matvæla. Græningjar vilji koma í veg fyrir að hinir efnaminni geti ferðast, á meðan fólk sem klappar upp loftslagsógnina, á borð við Karl Bretaprins, Richard Branson, Leonardio di Caprio, Drake og Al Gore halda áfram að ferðast um á einkaþotum, meira að segja á loftslagsráðstefnur. Þetta fólk byggir sér lúxusaðsetur langt frá almúganum og neytir yfirgengilega, á meðan almenningur er skikkaður til að sníða þegar hógværum lífsstíl sínum, enn þrengri stakk.

Lýðræðið er loftslagsprédikurum til trafala

Fyrir flestar fjölskyldur lofar róttæk stefna loftslagsprédikaranna lakari lífsgæðum. Þar á meðal er ákall um að eignast færri börn vegna áhrifa þess á kolefnislosun, hugmynd sem er hampað af loftslagssérfræðingum Háskólans í Lundi og Ríkisháskólans í Oregon. Sumir vísindamenn hafa lagt til að við hættum að borða hamborgara og byrjum að borða maðkapylsur. Sænskur hagfræðingur stakk upp á að við ætum hvort annað, í þágu endurvinnslu.

Ekki þarf að koma á óvart að talsmönnum loftslagsmála finnst lýðræðisleg stjórnmál sífellt óþægilegri. Loftslagsfræðingurinn Roger Pielke, skrifaði árið 2010 um „Járnalög loftslagsstefnu“ – stuðningur við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda takmarkist af þeirri fórn sem krafist er – og ákvarðar vilja fólks til að draga úr kolefnislosun sinni. „Fólk mun borga einhverja upphæð fyrir loftslagsmarkmið,“ hélt hann fram „en aðeins upp að vissu marki.“ Kostnaður upp á 80 dali árlega á hvert heimili á ári var eitthvað sem kannanir sýndu að fólk myndi vilja leggja á sig – en sé sú tala  hækkuð upp í 770 dali árlega, fellur stuðningurinn í undir tíu prósent.

Í ljósi þessa veruleika er líklegt að næsti forseti geti ekki fengið meirihluta beggja deilda bandaríska þingsins, til að framfylgja öfgastefnu sem kemur illa við líf miðstéttarinnar. Það mun neyða forsetann, í samræmi við áætlun Obama forseta (sem var afturkölluð af Donald Trump), til að setja loftslagsáætlunina af stað með framkvæmdavaldi og stjórnsýslu ríkisins. Hugmyndin um skipanir að ofan – að afhenda valdið til „útvaldra“ sérfræðinga sem starfa í Washington, Brussel eða hjá Sameinuðu þjóðunum – hefur verið borin fram af áhrifamiklum vinstri mönnum eins og Peter Orszag, fyrrverandi ráðgjafa Obama og Thomas Friedman, blaðamanni.

Heilaþvottur og valdstjórn til að ná róttækum markmiðum

Aðgerðasinnar í loftslagsmálum tileinka sér í auknum mæli þessa síð-lýðræðislegu hugsun. Sumir, þar með talinn fyrrverandi ríkisstjóri Kaliforníu, Jerry Brown, virðast kjósa valdstjórnarnálgun Kína til að taka á loftslagsmálunum, þrátt fyrir stærsta kolefnis fótspor heims sé í Kína og fer þar enn stækkandi. Brown hefur sett á stofn „Loftslagsstofnun Kaliforníu og Kína“ til að fara að dæmi Kína. Hann styður meira að segja „heilaþvott“ á borgurunum til að fá stuðning við loftlagsráðstafanir, á sömu línu og kínverskir hugsanastjórnendur notast við.

Eitt sinn allrar virðingar verð, og aðgengileg almenningi, er loftslagshreyfingin nú farin að líkjast trúarofstæki. Í stað rökræðu er nú krafa um hugmyndafræðilegt sammæli. Efasemdarmenn af öllum gerðum – jafnvel þeir sem samþykkja að loftslagsbreytingar geti verið ógn – eru jaðarsettir af fjölmiðlum. Aðrir, eins og fólk í jarðefnaeldsneytisiðnaði, er stefnt fyrir dómstóla og kallaðir „loftslagsglæpamenn.“

Slíkar hreyfingar hatast við hina vantrúuðu og hafa litla þolinmæði fyrir stjórnskipulegum takmörkunum og skorðum. Kratinn Wolfgang Thierse, fyrrverandi forseti þýska þingsins, sagði nýlega í viðtali við þýska blaðið Die Welt að ofstækismenn græningja hefðu andlýðræðislegar tilhneigingar. Þýskur sjónvarpsfréttamaður sem fjallaði um loftslagsmótmæli lýsti hreyfingunni þannig að hún „hafnaði hefðbundnum skilningi okkar á frelsi og ábyrgð“ og að hún „sé á mörkum fjöldamúgsefjunar, í bland við trylltan ótta og ásakanir. Sífellt meira skerandi, háværari og hraðari.“

Ástæðulaus svartsýni á mesta velmegunartíma sögunnar

Krafa um að kolefnisjafna jörðina í einu vetvangi er innblásin af hræðsluáróðri ekki síður en vísindum. Allt frá árinu 1968 þegar Paul Ehrlich gaf út ritverkið um Mannfjöldasprengjuna, og árinu 1972 þegar Rómarklúbburinn gaf út sína skýrslu, hafa umhverfisverndarsinnar spáð skorti á náttúruauðlindum, endalokum hagvaxtar og hungursneyð, og því hefur því verið tekið gagnrýnislaust af fjölmiðlum, háskólasamfélaginu og jafnvel stjórnmálunum. Samt hefur ofgnótt orku og matar aldrei verið meiri, á meðan heimurinn hefur upplifað mesta hagvaxtarskeið mannkynssögunnar.

Þrátt fyrir að hafa endurtekið haft rangt fyrir sér með dökkar horfurnar, hafa græningjarnir enn ekki fengist til að endurskoða dómsdagsspárnar. Þess í stað koma þeir aftur og aftur með enn eina spána um að jörðin eigi fimm eða tíu ár eftir ef ekki verði gripið til róttækra ráðstafana strax. Eftir kjör Obama í embætti forseta Bandaríkjanna gaf James Hansen, leiðtogi loftslagshreyfingarinnar hjá Bandarísku geimferðastofnuninni (NASA) út að forsetinn hefði aðeins fjögur ár til að bjarga jörðinni. Ýmisleg náttúrufyrirbæri sem eru skrifuð á loftslagsbreytingar, t.a.m. fellibyljir og þurrkar, reynast eiga sér margvíslegar og flóknar ástæður. Gróðureldana í Kaliforníu má rekja til ráðstafana sem gripið hefur verið til við að framfylgja grænum stefnum um að banna grisjun skóga. Slæmir þurrkar hafa orðið vegna andstöðu umhverfisverndarsinna við endurnýjun innviða vatnsveitu. Aktívistar hafa meira að segja reynt að kenna loftslaginu um orkuskort, þó svo að raunveruleg ástæða fyrir honum sé skortur á viðhaldi og uppbyggingu á dreifikerfum raforku.

Harðlínustefna skilar hverfandi árangri í stóra samhenginu

Harðlínu grænstefnur hafa lítil áhrif á loftslagið. Kalifornía, gróðrarstía róttækni í loftslagsmálum, er aðeins í 40. sæti fylkja Bandaríkjanna yfir árangur pr. íbúa í að draga úr gróðurhúsalofttegundum á tímabilinu frá 2007 til 2016. Svipað klúður hefur átt sér stað í Þýskalandi, þar sem Orkuskiptin (þ. Energiewende) hefur litlu skilað nema fokdýrum raforkureikningum og brostnum vonum um samdrátt í kolefnislosun. Jafnvel þó svo að Bandaríkin myndu samþykkja Nýja græna samkomulagið, yrðu áhrifin á loftslagið, skv. nýlegum útreikningum, sáralítil. Það sem er gert á Vesturlöndum skiptir æ minna máli þegar nánast öll aukning á kolefnislosun kemur frá þróunarríkjunum, með Kína í fararbroddi, þar sem hundruð milljóna manna búa enn við fátækt. Í heiminum býr enn milljarður manna við rafmagnsleysi. Leiðtogar ríkja eins og Indlands hafa mun meiri áhyggjur af orkuskorti en losun á gróðurhúsalofttegundum.

Gamli umhverfisverndarsinninn og rithöfundurinn Ted Nordhaus leggur til, að til að sættir náist við almenning, að hreyfing græningja ætti að varpa frá sér „útópískum draumaríkishugmyndum“ og „sættast við nútímann og tækniframfarir“. Græn sýndarmennska verði að víkja fyrir praktískum áætlunum til að sannfæra kjósendur, þar með talið að taka væntum og raunverulegum breytingum í umhverfinu með ró. Einbeita sér að uppbyggingu vatnsorku- og kjarnorkuvera ásamt jarðgasi, sem nóg er til af, í stað fáránlega kostnaðarsamrar endurnýjanlegrar orku. Krafa Nýja græna samkomulagsins um að hætta að nota kolefni sem orkugjafa fyrir árið 2030, segir fyrrverandi orkuráðgjafi Obama, Ernest Moritz, er óraunhæft markmið sem eyðileggur fyrir þeim stuðningi sem þarf fyrir raunhæfar lausnir til að draga úr kolefnislosun.

Bókstafstrú grænnar stefnu sem verið er að taka upp þessa dagana, mun leiða inn í pólitíska blindgötu sem krefst alræðistilburða stjórnvalda, og verður á kostnað þeirra sem minnst mega sín. Með því að hafna hófsemdinni sem er innbyggð í eðlilega starfandi lýðræði, eru loftslagsofstækismenn að valda skelfilegum skemmdum, bæði á stjórnskipulegum innviðum og sjálfbærni samfélaganna – sem og á jörðinni sjálfri.