Loftslagsmál kosin versta skattasóun ársins 2019 í Svíþjóð

Greta Thunberg, sænski unglingurinn sem skammaðist yfir loftslaginu. Skjáskot/Youtube

Loftslagsmál hafa verið kosin versta sóun ársins 2019 af almenningi í Svíþjóð. Loftslagsstefna stjórnvalda fékk af því tilefni skammarverðlaun frá Samtökum skattgreiðenda í Svíþjóð. Frá því segir í tilkynningu á vefsíðu samtakanna.

Ríkisstjórn Svíþjóðar hefur meira en tvöfaldað fjárveitingar til loftslagsmála, en þrátt fyrir það dregst losun á gróðurhúsalofttegundum ekkert saman. Árið 2018 jókst losunin jafnvel. Þess vegna hefur loftslagsstefnan verið kosin versta sóun ársins, segir Johan Gustafsson, eftirlitsmaður sóunar hjá Samtökum skattgreiðenda.

Með yfir 18.000 atkvæði, var sett nýtt met í fjölda atkvæða í árlegri keppni um verstu sóun á skattfé, og hlaut loftslagsstefnan 30 prósent atkvæða.

Gríðarlegum fjárhæðum sóað til einskis

Fjárframlög til loftslagsstefnu stjórnvalda hafa meira en tvöfaldast á undanförnum árum, en losun hefur í grundvallaratriðum hætt að dragast saman. Í fjárlögum ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2020 voru áætlaðir 12,6 milljarðar sænskra króna (164,5 milljarðar íslenskra króna) til loftslagsmála samanborið við 5,2 milljarða árið 2014. En þrátt fyrir það, minnkar losunin ekkert. Á síðasta ári jókst losunin jafnvel lítillega.

Sérfræðingar sænskra yfirvalda, hjá ríkisendurskoðun og Hagstofunni, hafa fordæmt mörg af helstu verkefnum stjórnvalda, svo sem vegna loftslagsbreytinga, stuðning við rafbíla og sólarorku. Í janúar 2019 sagði ríkisendurskoðandi, Helena Lindberg, í athugasemd við endurskoðun Ríkisendurskoðunar á loftslagsmálum, að „kostnaður á hvert kíló af minni losun gróðurhúsalofttegunda hafi verið gríðarlegur“. Í umsögn sinni um fjárhagsáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2017 (þegar hún var kynnt) skrifaði Þjóðhagsstofnun í skýrslu um efnahagsrannsóknir að áætlunin „eigi á hættu að verða kostnaðarsamt vindhögg“. Það þykir ansi harkaleg gagnrýni frá sérfræðingum ríkisins.

Á sama tíma hefur þriðji hver niðurgreiddur umhverfisvænn bíll verið fluttur til Noregs. Að eyða svona mikið fé í styrki til kaupa á rafhjólum, stuðning við sólarpanela eða loftslagskvíðameðferðir þegar aðrar ráðstafanir fjárins gætu nýst betur, er ekki hægt að flokka sem neitt annað en sóun.

Myndlist fyrir ánamaðka og kláfur yfir á koma á eftir loftslagsmálunum

Í öðru sæti í keppninni urðu opinberir milljónarstyrkir vegna myndlistar fyrir ánamaðka, og í þriðja sæti áætlanir Gautaborgar um kláf yfir Gautá.

Nánast á hverjum degi fylgist umboðsmaður skattgreiðenda með sóun á skattfé, með nýjum dæmum um það hvernig stjórnmálamenn og aðrir valdhafar sóa peningunum. Þetta snýst ekki bara um stórframkvæmdir eða minni verkefni sveitarfélaga. Óhagkvæmni sem einkennir opinberan rekstur er jafn alvarleg.