Loftslagsmálin: Vísindaheimurinn í vanda staddur – hverju á að trúa?

Sigurður Már Jónsson, blaðamaður skrifaði um loftslagsmálin og vanda vísindasamfélagsins.

„Loftslagsmálin eru gríðarlega flókin. Það er eitt að samþykkja þær mælingar sem hafa verið gerðar, annað að taka við athugasemdalaust þeim ályktunum sem út frá þeim koma. Þá hljóta viðbrögð og lausnir að verða að ræðast af einhverri skynsemi en ekki óðagoti og upphlaupum sem allt of mikið sést af“, var niðurlag pistils sem Sigurður Már Jónsson, blaðamaður, birti á mbl.is 5. október sl. undir yfirskriftinni „Mín vísindi eru betri en þín!“

Má segja að hann hafi þar með tekið undir orð Margrétar Þórhildar Danadrottningar, sem ráðlagði fólki að halda ró sinni í umræðu um loftslagsmálin, í viðtali á dögunum, eins og Viljinn greindi frá.

Sigurður Már segir jafnframt í pistlinum, staðreyndina vera þá, að nú á tímum gengdarlausra rannsókna, gríðarlegrar gagnaöflunar og vaxandi færni og getu til að vinna með og afla vísindalegra gagna virðist vísindaheimurinn standa frammi fyrir sömu áskorunum og þeir sem velkjast um í dægurumræðunni; hverju ber að trúa? 

„Rétt eins og heimur stjórnmála og fjölmiðla virðist útataður í falsfréttum og röngum heimildum virðist vísindaheimurinn eiga í erfiðleikum á sumum sviðum.“

Sniðgengnir á þann hátt að líkja megi við einelti

Þannig gagnrýnir hann t.a.m. Háskóla Íslands (HÍ), og tekur dæmi: 

„Uppgjörsráðstefna Háskóla Íslands á síðasta ári, við bankahrunið, var af líkum meiði, nánast eins og það væri verið að forma tiltekna skoðun á ýmsum þeim álitaefnum sem þar komu upp, svo sem Icesave-málinu. Þetta gerði ég að umræðuefni fyrir ári síðan í kjölfar ráðstefnunnar. Það var reyndar hálf dapurlegt að sitja í hátíðarsal HÍ og hlusta á nokkra prófessora reyna að slá varðstöðu utan um skoðanir sínar í þessum málum og hleypa annarri umræðu ekki að.“

Sigurður Már minnist einnig í pistlinum á viðtal sem tekið var við íslenskan vísindamann og segir: „Það vakti sérstaka athygli mína að Anna Guðrún [Þórhallsdóttir, beitarvistfræðingur] gagnrýndi að litið hefði verið fram hjá sér við skipulagningu tiltekinnar ráðstefnu, þrátt fyrir sérþekkingu hennar á sviði landnotkunar og loftslagsmála. Einnig sagði hún að síðustu ár hefði borið á því innan skólans að „tilteknar skoðanir skuli útiloka og þeir sem þær hafa eru sniðgengnir á þann hátt að helst má líkja við einelti.“

Minnir þessar frásagnir Sigurðar Más óneitanlega á þann atburð sem átti sér stað á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í september sl. Fjöldi vísindamanna sem ekki vilja taka undir þær hrakspár sem þar voru boðaðar í loftslagsmálunum, fengu ekki að taka þátt. Fimmhundruð þeirra, frá 23 löndum, tóku því til þess bragðs að skrifa yfirlýsingu, undirrita hana og skora á framkvæmdastjóra Sameinuðu Þjóðanna að setja hana á dagskrá. Á meðal þeirra fræðimanna sem undirrituðu yfirlýsinguna er Rögnvaldur Hannesson, heimsþekktur íslenskur prófessor í auðlindahagfræði.

Eins og Viljinn greindi frá, var ekki orðið við þeirri ósk.