Loftslagssjóður er nýr samkeppnissjóður sem var kynntur af umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, á fundi í Norræna húsinu í dag sem streymt var á netinu, og umsjónarmaður hans, Hildur Knútsdóttir, lýsti eftir umsóknum um styrki. Ráðherra hefur einnig falið Rannís umsjón með honum.
Stjórn sjóðsins skipa Hildur Knútsdóttir, formaður og Helga Barðadóttir báðar án tilnefningar, Hjálmar Hjálmarsson tilnefndur af umhverfisverndarsamtökum, Jón Ólafsson, tilnefndur af háskólasamfélaginu og Pétur Reimarsson, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins.
Boðið er upp á styrki til árs í senn, að fjárhæð annars vegar að hámarki 5 milljónir til kynningar og fræðslu og hins vegar að hámarki 10 milljónir til rannsóknar- og þróunarstarfa. Nota má styrkina til samfjármögnunar alþjóðlegra verkefna. Samtals verður hálfum milljarði króna varið til verkefnisins á næstu fimm árum.
Lánað verði til einstaklinga, félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana – en eftir spurningu úr sal kom fram í svari Hildar að sveitarfélög séu einnig styrkhæf. Það styrki verkefnið ef það „nýtist sem víðast í samfélaginu“.
Hlutverk sjóðsins er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni til kynningar og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga.
Opnað hefur verið fyrir umsóknir í sjóðinn og hægt er að sækja um til kl. 16, þann 30. janúar nk.