Loftslagsstefna ESB: Fjármálahneyksli aldarinnar?

Evrópski fjárfestingabankinn EIB er með metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum. Mynd/EIB

Með þúsund milljarða evra til ráðstöfunar verður nauðsynlegt að eiga vini í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að dafna í skugga alls þessa opinbera fjár…

Um þetta skrifaði Michael Gay í franska miðilinn Contrepoints þann 12. desember sl. og Viljinn þýddi.

Ursula von der Leyen.

Ursula von der Leyen, nýr forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), sagði í ræðu sinni á loftslagsráðstefnunni COP25 í Madríd á Spáni nú í desember, að hún vildi leggja fram áætlun sem kallast Green deal (eða „grænn samningur“ upp á þúsund milljarða evra næsta áratuginn).

Meginmarkmiðið sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í ESB um 55% fyrir árið 2030 miðað við árið 1990, vegna loftslagsmála.

Skaðlegur pilsfaldakapítalismi

Eftirfarandi er haft eftir Ursula Von der Leyen:

European Green Deal er ný vaxtarstefna Evrópu. Hún mun draga úr losun um leið og að skapa störf og bæta lífsgæði okkar. Til þess þurfum við fjárfestingar […] Í þessu skyni munum við leggja fram áætlun.

Evrópuforsetinn tilkynnti einnig evrópsk loftslagslög í mars 2020 sem munu gera umskiptin til kolefnishlutleysi … „óafturkræf“!

Hún bætti við:

Ef einhverjir tala um kostnað, ættum við alltaf að hafa í huga viðbótarkostnaðinn ef við gerum ekkert.

Jafnvel þótt enginn hafi minnstu hugmynd um hver þessi „viðbótarkostnaður“ sé…

Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, sem hefur yfirumsjón með Green Deal, sagði á blaðamannafundi í Brussel að þessar fjárfestingar væru „sambland af almannafé, lánum og einkafjármagni“ sem áætlað sé að verði, „á milli 180 og 300 milljarðar evra á ári“.

Frans Timmermans.

En í hvað munu þessar „brjálæðingslega háu fjáræðir“ fara?

Hver sem uppruni peninganna er, með einföldum frásogunaráhrifum, þá mun fjármagnið skorta annars staðar, þar sem það gæti verið gagnlegra (heilbrigðismál, opinber þjónusta, þjóðaröryggi …).

Hann bætti einnig við, hjá svæðisnefndinni, sem er fulltrúi sveitarfélaganna í Brussel að:

„fjármagnskostnaðurinn núna er ekki mjög dýr. Fólk verður að skilja að það er líka mikill kostnaður við að grípa ekki til aðgerða. Hugmynd okkar er að öll aðildarríkin skuldbindi sig til að vera hlutlaus í loftslagsmálum árið 2050.“

Þetta er raunverulegt ákall um að eyða opinberu fé til að fjármagna atvinnugreinar, sem merktar eru sjálfbærri þróun, og að bankar fjárfesti í dýrri og óhagkvæmri endurnýjanlegri orku.

Með öðrum orðum, það er verið að hvetja til pilsfaldakapítalisma.

Hvernig á að borga fyrir þetta?

Spurningunni er hægt að snúa í allar áttir, en að lokum munu skattgreiðendur og neytendur borga að mestu, eins og venjulega.

Fólk mun fara að velta fyrir sér: „Af hverju er verið að draga úr þjónustu? Af hverju hækka skattar? Og hvers vegna eru lífskjör mín orðin lakari?“

Pilsfaldakapítalismi lýsir hagkerfi þar sem velgengni í viðskiptum er háð nánum samskiptum við fulltrúa valdsins: ríkisstjórnir, ýmsar nefndir o.s.fr.v. Markmiðið er að skapa einkavinavæðingu, til dæmis við úthlutun leyfa, niðurgreiðslur ríkisins eða skattaafslætti. Hún birtist þegar vinavæðing, þar með talin hugmyndafræðin, smitast yfir í stjórnmálin til kjörinna fulltrúa og embættismanna.

Það leiðir til tengsla á milli kjörinna embættismanna og aðila á markaði, einkum við að hreppa opinbera samninga, fá niðurgreiðslur og leiðbeina löggjöf. Sum þessara kerfa eru nú þegar til staðar og ráða öllu hagkerfinu, en þau eru yfirleitt lúmskari.

Það er einnig hægt að kalla þetta nepótisma sem ræðst á almannahagsmuni með því að hafa áhrif á hagfræði opinberrar þjónustu.

Með þúsund milljarða evra til ráðstöfunar verður nauðsynlegt að eiga vini í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að dafna í skugga alls þessa opinbera fjár…

Hverjir græða á þessu?

Þessi ósköp af opinberu fé, sem allir Evrópubúar þurfa að greiða, í formi skatta og neysluskatta (eldsneyti, orka, samgöngur, o.s.fr.v.) munu nýtast snjöllustu kaupsýslumönnum, sem munu gera sér veisluborð úr „kolefnishlutleysi árið 2050“.

Allir stjórnmálamenn, sem aldrei verða látnir bera ábyrgð á mistökum sínum og þeirra mistökum, vita vel að þetta er tálsýn, nema auðvitað ef Evrópa (þar sem CO2 losun hefur dregist saman um aðeins 20% á 20 árum) flytur allan iðnað sinn til Asíu (þ.m.t. sólarpanelaframleiðslu) og að þessi kolefnislosun verður ekki rakin til hennar…

Það er þversagnakennt að af 28 ríkjum ESB, losar Þýskaland, sem er í fararbroddi grænnar stefnu, mest af CO2. Þýskaland losar um fjórðung, sem er meira losun 17 hagkvæmustu ríkjanna, sem losa aðeins 14% samtals.

Og þetta land vill flýta sér mest!

Þrátt fyrir stærð sína og umfangsmikinn iðnað, losar Frakkland aðeins 10% af heildarkolefnislosun ESB, og fyrir það má þakka kolefnislausri framleiðslu landsins á kjarnorku.

Mun þessi þúsund milljarða evra evrópska áætlun virkilega þjóna hagvexti í Evrópu?

Eða mun hún fóðra vasa „vina og vandamanna“ með milljarða bitlingum, eins og í vindmylluiðnaðinum?

Væri ekki eðlilegt að kalla þessa brjálæðingslegu peningasóun glæp, sem mun ganga frá Evrópu, gera út af við evrópskan iðnað og þróað vestrænt samfélag, sem er svo hatað af þeim sem hafna hagvexti?

Þessir milljarðar evra sem verða teknir að láni, skuldsetja enn frekar framtíð barnanna okkar. Þau munu þurfa að greiða reikning undir yfirskini „loftslagsvarna“, sem brátt mun verða minnst sem fjármálahneykslis aldarinnar.