Sendiherra Kína í Danmörku, Feng Tie, hótaði framámönnum færeysku landstjórnarinnar vafningalaust, að kínversk stjórnvöld myndu fella úr gildi fríverslunarsamning Færeyja og Kína, ef fjarskiptarisinn Huawei fengi ekki að gera stefnumarkandi mikilvægan viðskiptasamning við Færeyjar.
Þetta kemur fram á hljóðupptöku, sem í kjölfarið var sett lögbann við birtingu á, að sögn danska blaðsins Berlingske. Blaðið greindi frá því í gær, eftir að hafa, þrátt fyrir lögbannið, fengið hana í hendurnar til birtingar. Viljinn þýddi umfjöllunina.
Í fyrsta sinn tengja kínversk stjórnvöld sig við stórfyrirtækið Huawei
Upptakan markar fyrsta skiptið þar sem kínversk stjórnvöld tengja sig beinlínis við kínverska síma- og fjarskiptarisann Huawei og samninga þeirra um 5G net í Evrópu. Huawei hefur lýst því yfir opinberlega að það sé einkafyrirtæki sem hafi engin tengsl við kínversk stjórnvöld.
Undanfarna daga hafa færeysk stjórnvöld reynt að halda upptökunni leyndri með lögbanni á birtingu hennar. Kringvarp Føroya hafði ætlað að afhjúpa upptökuna í frétt sem send var út á mánudaginn fyrir meira en viku.
En eins og Berlingske hefur nú upplýst um, þá sýnir hljóðinnskotið skýrt hvernig kínverski yfir diplómatinn notaði fundinn til að binda Huawei samninginn ótvírætt við breiðari viðskiptahagsmuni landanna, sem sérstaklega hefði áhrif á stóran og vaxandi útflutning Færeyinga á laxi til Kína.
Þetta opnar augun fyrir stormi sem geysar í alþjóðastjórnmálunum vegna grimmrar valdabaráttu á milli Bandaríkjanna og Kína, vegna hlutverks Huawei í framtíð 5G nets eyjaklasans. Bandarísk stjórnvöld fullyrða að hægt sé að nota kínverska vélbúnaðinn til að njósna, þó Huawei neiti því.
Kínverski sendiherrann var „mjög ákveðinn“
Berlingske hefur komist að því að Feng Tie sendiherra Kína hafi útskýrt á tveimur fundum, þann 11. nóvember – fyrst með utanríkisráðherra Færeyja, Jenis av Rana, og síðar sama dag með færeyska fjármálaráðherranum, Jørgen Niclasen, og lögmanni Færeyja, Bárði Nielsen – að ef færeyski fjarskiptafyrirtækið Føroya Tele samþykkti að láta Huawei byggja 5G netið, yrðu allar dyr opnaðar fyrir fríverslunarsamning á milli Kína og Færeyja
Hann lýsti því einnig yfir að Kína myndi ekki gera slíkan viðskiptasamning ef Huawei fengi ekki samninginn. Samkvæmt upplýsingum Berlingske er kínverski sendiherrann sagður hafa verið „mjög ákveðinn“ í yfirlýsingum sínum til æðstu embættismanna Færeyja.
Hljóðupptökan leiðir einnig í ljós að færeyski leiðtoginn, Bárður Nielsen, hafi tilkynnt sendiherra Kínverja vafningalaust, að hvorki hann né færeyska stjórnin myndu blanda sér í valferlið vegna 5G netsamningsins sem Færeyska símafyrirtækið býður upp á.
Danska varnarmálaráðuneytið varaði við samningi við Huawei
Eins og Berlingske hefur komist að, kemur skýrt fram í hljóðupptökunni að danska utanríkisráðuneytið hafi gefið færeysku stjórninni til kynna að danska varnarmálaráðuneytið vari við því að velja Huawei sem 5G netþjónustuaðila.
Hljóðupptakan, sem er í eigu Kringvarp Føroya, hefur að geyma samtal sem varði í u.þ.b. mínútu á milli færeyska viðskiptaráðherrans, Helga Abrahamsen, og deildarstjóra hans 15. nóvember.
Þann dag var Abrahamsen að fara í viðtal við Kringvarp Føroya um efni Huawei. Skömmu fyrir viðtalið, sem fram fór á skrifstofum viðskiptaráðuneytisins, bað deildarstjórinn ráðherrann um að ganga með sér í aðliggjandi herbergi.
Þar ræddi hann um hótanir kínverska sendiherrans gegn færeysku landstjórninni í trúnaðarsamtali við ráðherrann, sem óvart var tekinn upp af Kringvarpinu vegna þess að Helgi Abrahamsen var með hljóðnema á jakkanum. Deildarstjórinn hafði ekki verið viðstaddur fundina með sendiherra Kínverja en var meðvitaður um það sem sagt hafði verið.
Lögbannið sett til að „vernda samband Kína og Danmörku“
Tuttugu og tveimur mínútum áður en sjónvarpsstöðin ætlaði að birta þessa uppljóstrun í síðbúnum fréttum, sem sendar voru út á mánudaginn fyrir rúmri viku, fyrirskipaði dómari í Þórshöfn lögbann á birtingu upptökunnar.
Færeyska landstjórnin hafði beðið dómstólinn um að setja lögbann á grundvelli þess að birting þessara upplýsinga gæti skaðað samband danska samveldisins og Kína. Á mánudaginn í vikunni lagði ríkisstjórnin síðan fram beiðni um að lögbannið yrði áfram í gildi.
Berlingske hefur gert nokkrar tilraunir til að fá umsögn um málið frá kínverska sendiráðinu, enn sem komið er án árangurs.
Huawei hefur lýst því yfir við Berlingske að það hafi ekki vitneskju um þessa fundi milli kínverska sendiherrans og færeyska ráðamanna.