Lúkasarmál eru víða: Fíflin sem eyðilögðu jólin reyndust vera alsaklaus

Íslendingar hafa vonda reynslu af svonefndum Lúkasarmálum, þar sem stormur á samskiptamiðlum verður til þess að saklaust fólk er dæmt og nánast tekið af lífi án nokkurra sannana í heitri múgæsingu. Nú hafa Bretar upplifað risastórt Lúkasarmál og óhætt er að segja að fjölmiðlar og almenningur skammist sín niður í tær á eftir.

„Eru þetta fíflin sem eyðilögðu jólin?,“ sagði dagblaðið Mail á forsíðu, þar sem birt var mynd af Paul Gait og Elaine Kirk, sem áttu að vera hjónin sem höfðu rústað flugumferð á Gatwick-flugvelli með drónaflugi. Ferðaplön ríflega 140 þúsund manns fóru í vaskinn, þúsundir flugferða voru felldar niður eða þeim frestað og margir áttu erfitt með að komast á langþráðan áfangastað fyrir jólafrí.

Þjóðin krafðist þess að vita hverjir bæru ábyrgð á málinu og athygli lögreglu beindist að hjónunum sem búa nálægt flugvellinum og voru þekkt fyrir að eiga töluvert af drónum í fórum sínum. Þau voru umsvifalaust nafngreind og hneppt í gæsluvarðhald, húsleit gerð á heimili þeirra og fjölmiðlar settu upp beinar útsendingar þar fyrir framan og útlistuðu í smáatriðum hvernig þau hefði skipulagt drónaflug til þess að valda flugfarþegum eins miklum skaða og kostur væri.

Forsíða Mail on Sunday á Þorláksmessu fer í sögubækurnar.

Nema svo kom í ljós að ekkert var til í ásökununum. Hjónin voru með skothelda fjarvistarsönnun og sönnunargögn lögreglu reyndust byggð á sandi.

Þau hittu fjölmiðla á aðfangadag og lásu upp yfirlýsingu, þar sem fram kom að þau hafi leitað sér áfallahjálpar, þar sem einkalíf þeirra og mannorð hafi verið lagt í rúst. Meðferð fjölmiðla á þeim hafi verið ógeðfelld og þau muni þurfa langan tíma til að jafna sig.

Lögregluyfirvöld eru enn engu nær um það hver eða hverjir bera hina raunverulegu ábyrgð á drónafluginu við Gatwick, en gagnrýni á taugaveiklunarkennd viðbrögð við málinu hefur aukist og m.a. hefur Boris Johnson, fv. borgarstjóri Lundúna og utanríkisráðherra, spurt hvort virkilega þurfi að loka flugvöllum og aflýsa öllu flugi þegar fregnist af flugi lítilla tækja sem gangi fyrir rafhlöðum og kaupi megi á næsta blaðsölustað.