Már Guðmundsson hættir í Seðlabankanum í ágúst

Már Guðmundsson flutti síðustu ræðu sína sem bankastjóri á árshátíð bankans í gær. / Facebook: Elsa Þorkelsdóttir.

Már Guðmundsson hættir sem seðlabankastjóri í ágúst næstkomandi. Þá rennur út skipunartími hans að lögum, en hann hefur þá verið tíu ár í starfi sínu.

Árshátíð bankans var haldin í gær og ávarpaði Már starfsmenn bankans með þeim orðum að þetta væri síðasta árshátíð hans sem bankastjóri.

Samkvæmt heimildum Viljans stendur hugur Más til starfa erlendis, en gera má ráð fyrir að töluverður slagur sé framundan um embætti seðlabankastjóra. 

Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hafnaði því aðspurð í Silfrinu í dag, að hún sækist eftir starfinu. Kvaðst hún ætla að klára kjörtímabilið sem ráðherra, enda væri það eitt mikilvægasta embættið hér á landi.