Anna Kolbrún Árnadóttir, þingkona Miðflokksins, kveðst vera jafnsek öðrum þingmönnum sem komu saman á Klausturbar á dögunum og áttu samræður sem sagt hefur verið frá í fjölmiðlum. Hún hefði setið hjá og ekki gert neitt. Það sé einmitt að plaga hana hvað mest, að hún væri jafnsek þó að hún hefði ekki sett jafn ljót orð fram.
Þetta kemur fram í löngu viðtali við þingkonuna í Morgunblaðinu í dag. Hún sat einnig fyrir svörum í morgunþætti Bylgjunnar í dag ásamt formanni flokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.
Í viðtalinu við Morgunblaðið segir Anna Kolbrún, að segi hún af sér þingmennsku sé hún um leið að undirstrika að konur fari. „Ef ég sit áfram, sem verður áfram erfitt, þá þýðir það að ég ætla að takast á við þetta. Það verður erfitt og erfitt fyrir fólk að takast á á við þetta. Ef ég bugast þá bugast ég.“
Hún segir að sér hafi liðið mjög illa og hafi grátið mikið, meira en hún hafi nokkru sinni gert. Hún hafi grátið á fundum með öðrum þingmönnum undanfarna daga, líka á fundi með forseta Alþingis.
Anna Kolbrún greindist með krabbamein í brjósti árið 2011 og hefur verið í meðferðum við því, með hléum, síðan þá. Það hefur nú dreift sér um allan líkamann. Í kringum hjarta, í eitla, kviðarhol og í lífhimnu. Hún er nýbyrjuð í meðferð og jólaleyfi alþingismanna fer í það.
„Ég er með 4. stigs krabbamein. En ég tala aldrei um það, mér finnst það í sjálfu sér ekki koma þessu máli neitt við. Ég vil bara fá að vera manneskja; ég er kona með krabbamein en ég er ekki krabbameinið,“ segir hún.