Meiri blairistar en Samfylkingin var nokkru sinni

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar og rithöfundur, gerir tuttugu ára afmæli Vinstri grænna að umtalsefni á fésbók og segir:

„Fyrir um það bil tuttugu árum ákváðu íslenskir jafnaðarmenn að sameina krafta sína í eina stóra hreyfingu. Þá runnu saman í óformlega og enn óstofnaða fylkingu fjórir flokkar – Alþýðubandalag, Kvennalisti, Þjóðvaki og Alþýðuflokkurinn, og svo auðvitað landlausu vinstri mennirnir eins og ég.

Við sameinuðumst um að berjast fyrir jöfnuði, kvenfrelsi, friðarstefnu og umhverfisvernd með frjálslyndi, réttlætisþrá og umburðarlyndi að leiðarljósi. Sumir kenna slíkar hugsjónir og viðleitni við „góða fólkið“, og er víst háðsglósa.

En hafi „góða fólkið“ reynt að sameinast í eina hreyfingu má segja að annað fólk í sömu hreyfingu hafi litið á sig sem „betra fólkið“; þeim fannst fólkið í Samfylkingunni ekki nógu gott fyrir sig, ekki alveg rétt vinstri sinnað – og stofnuðu því sinn sérstaka flokk.

Þegar betur var að gáð var ýmislegt sem skildi á milli: þau í VG voru ekki bara hrifnari af byltingunni á Kúbu en við þegar hér var komið sögu, og að sama skapi minna hrifin en við af norrænum velferðarkratisma, heldur voru þau líka í sterkari tengslum við landbúnað og sjávarútveg og fyrirtækin þar, drógu frekar taum framleiðenda en neytenda, aðhylltust verndartolla og einangrunarstefnu þótt slíkt þýddi hærra vöruverð.

Varðandi Evrópusambandið litu þau svo á að þar hefðu hreiðrað um sig gömlu heimsvaldasinnarnir sem við ættum enga samleið með.

Síðan er mikið vatn runnið til sjávar og nú virðist forystu VG í mun að sýna okkur hinum að þau séu ekki bara réttari vinstri menn en við í Samfó heldur líka meiri blairistar en Samfylkingin var nokkru sinni, og bjóða hingað einum af helstu foringjum þess skeiðs í breska Verkamannaflokknum á meðan þau búa sig undir að taka á móti utanríkisráðherra Trumpstjórnarinnar.“