Mér ofbauð, eins og öllu fólki sem á þetta hlustaði

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.

Forseta Íslands segir að sér hafi ofboðið talsmáti þingmanna sem komu saman á Klausturbar í fyrri viku og áttu samræður sem teknar voru upp og birtar opinberlega. Hann segir þingmennina hafa gerst seka um virðingarleysi og sjálfsupphafningu og viðhaft orðfæri sem sé til marks um einhvern undirliggjandi vanda.

Þetta kom fram í viðtali við Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands í Silfrinu í dag. Tilefni viðtalsins var aldarafmæli fullveldisins og var það tekið á föstudag, áður en tilkynnt var að tveir þingmenn hefðu verið reknir úr Flokki fólksins og að tveir þingmenn Miðflokksins væru komnir í launalaust leyfi.

„Auðvitað ofbauð mér, eins og öllu fólki sem á þetta hlustaði. Orðfærið, virðingarleysið, sjálfsupphafningin,“ sagði forsetinn. Hann segir þetta augljóslega ekki réttu leiðina til að auka traust landsmanna á Alþingi, að viðhafa slíkt orðfæri „sem er til merkis um einhvern undirliggjandi vanda,“ sagði hann.

Guðni benti á að við búum ekki í samfélagi þar sem forseti Íslands segi þingmönnum fyrir verkum, ráði þá eða reki. Allt slíkt vald sé í höndum kjósenda. Og svo sé samviskan það vald sem frjálsir menn hlýði.

„Þetta er eitt af okkar eilífðarverkefnum daginn út og daginn inn; að hugsa um það hvernig við getum orðið að liði. Hvernig við getum sagt við okkur að morgni dags: „Nú ætla ég að standa mig í vinnunni.“ Og svo að kvöldi: „Þetta var nú góður dagur.“ Sérstaklega fyrir okkur sem erum í þjóðkjörnum stöðum. En ég held að það yrði ekki til framdráttar góðum málstað ef ég færi að setja mig á afskaplega háan stall og segja öðrum til syndanna. En um leið leyfir maður sér að vona að fólk finni hjá sjálfu sér hvað það hefur gert og hvernig beri að bregðast við,“ segir forseti Íslands.