Eftir Viðar Frey Guðmundsson:
Mig dreymdi í nótt að nokkrir forystumenn Miðflokksins og í raun stjórn flokksins eins og hún leggur sig hafi verið saman á bar með dólgslæti sem hefðu fengið jafnvel Sverri Stormsker til að roðna. Síðan vaknaði ég aldrei upp af þessari martröð. Hvar sem ég kem er verið að tala um þetta. Samfélagsmiðlar loga og það er fátt annað í fréttum fjölmiðla.
Það er gleðilegt þó að enginn sem var talað illa um í þessari ólukkulegu samkomu virðist hafa tekið þetta sérlega nærri sér. Það hefði ég heldur ekki gert í þeirra sporum. Ég ætla ekki að fjalla um hérna hvers vegna ummælin sem féllu séu röng, enda hef ég engu við að bæta allt sem þegar er komið fram í þeim efnum. En ég er nú samt bæði reiður og sár yfir þessu af mörgum ástæðum. Þingmenn eiga að vera öðrum borgurum fyrirmynd. Þeir eiga að vera flekklausir. Þeir sem setja lögin í landinu hljóta að bera ríkari skyldur þegar kemur að siðferði og framkomu. Ofdrykkja og slúður er eitt það síðasta sem kjörnir fulltrúar eða embættismenn ættu að láta grípa sig við.
Hér er eins og met hafi verið slegið í dónatali. Í það minnsta miðað við það sem ég hef nokkru sinni heyrt. Ég hugsa að ég hefði enda aldrei orðið vitni að svona samskiptum í seinni tíð, þó ég telji næsta víst að það þurfi ekki að leita lengi til að verða vitni að öðru eins. Ég hef enga þolinmæði fyrir fyllerísrausi og læt mig hverfa úr samkvæmum tímanlega þegar ég sé að það stefnir í slíkt. Þetta er hlið á fólki sem ég kæri mig sjaldnast um að kynnast. Ég hef enda verið bindindismaður síðan 2005 og stunda sjaldan samsæti þar sem áfengi er haft um hönd. Öll sú menning sem tíðkast í kringum ofdrykkju er orðin svo fjarlæg mér að þessi hegðun þingmannana er þeim mun meira sjokk fyrir mér.
UM STARFIÐ Í MIÐFLOKKNUM FRAM AÐ ÞESSU
Nú verð ég að taka fram að ég þekki þetta ágæta fólk sem sat á Klausturbarnum ekki neitt. Þó við séum flest saman í flokki þá hef ég lítil samskipti átt við þetta fólk þar sem ég hef fyrst og fremst starfað með frambjóðendum í Reykjavík og Miðflokksfélagi Reykjavíkur. Þannig að ég get ekki einu sinni sagt að ég þekki þetta fólk af góðu einu þann part dagsins sem fólk er vanalega edrú. Sumir virðast halda að vegna þess að ég sé í Miðflokknum hljóti ég að vera í stöðugum samskiptum við Sigmund Davíð. En raunveruleikinn er sá að formaður flokksins hefur lítið sem ekki neitt með starf okkar í Reykjavík að gera og sjálfsagt er það eins með önnur kjördæmafélög. Líklega hefur hann bara nóg annað að gera í sínum störfum, þó hann láti stundum sjá sig við hátíðleg tilefni.
Fólk á vinstri væng stjórnmála virðist haldið þeirri ranghugmynd að Sigmundur Davíð sé eins og einhver kóngur í þessum flokki. Þau orð hafa verið látin falla í umræðum undanfarna daga að Miðflokkurinn sé aðeins sértrúarsöfnuður í kringum einn mann. Þetta þykir mér afar óréttlátt í garð allra þeirra sem ég hef starfað með í Miðflokknum. Við unnum öfluga málefnavinnu með stórum hóp frambjóðenda fyrir sveitastjórnarkosningarnar. Sigmundur Davíð eða stjórn flokksins kom þar hvergi nærri né voru þau spurð álits á hvernig við höguðum okkar kosningabaráttu. Þeir sem voru á framboðslistanum voru þar með algjörlega frjálsar hendur að gera hvað sem þeim sýndist og koma með hvaða lausnir sem þeim datt í hug á borgarmálum. Ég geri ráð fyrir að í hverju kjördæmi hafi þetta verið með sama hætti.
Miðflokkurinn er fjöldahreyfing og mældist nýlega þriðji stærsti flokkurinn í skoðanakönnun. Það er ekki réttlátt að tala niður til okkar almennra flokksmanna með þeim hætti sem nú er gert að formaður flokksins sé einhverskonar andlegur leiðtogi. Ég hef veitt því athygli að þetta viðhorf um meinta leiðtogadýrkun virðist helst bundið við fólk á vinstri vængnum. Sem er þá kannski vant því að sitja í einhverskonar leiðtogaræði og leiðtogadýrkun í sínum flokkum og býst við að svo sé hjá öðrum líka. Ég get ekki skilið þetta viðhorf öðruvísi. Enda er mönnum tamt að dæma aðra út frá eigin veruleika.
ENGIN PERSÓNA ER STÆRRI EN FLOKKURINN
Mér þykir því afar leitt að fólk sem á að teljast leiðtogar okkar hafi orðið okkur öllum til skammar. Ekki aðeins sjálfum sér til skammar og valdið særindum með ummælum sínum. Heldur hefur þetta mál kastað rýrð á allt það góða starf sem óbreyttir flokksmenn og aðrir frambjóðendur hafa unnið. Ég er eiginlega reiðastur fyrir hönd þeirra manna og kvenna sem hafa gefið af óeigingirni stóran hluta af tíma sínum. Fólkið sem starfaði á gólfinu. Hellti upp á kaffið og tók á móti fólki á kosningaskrifstofum vikum saman. Þetta fólk varð mér gríðarlegur innblástur í kosningabaráttunni. Að sjá slíka hugsjón hjá fólki er ótrúlega fallegt. Þetta fólk bað ekki um neitt í staðinn fyrir sín störf. Það gaf ekki aðeins vinnu sína, heldur borgaði jafnvel með sér í sumum tilfellum. Þessar hetjur trúðu því af einlægni að þau væru að hjálpa samfélaginu til betri vegar. Ég samsama mig mikið með þessu fólki. Ég held að mörg þeirra séu í sárum í dag. Ekki aðeins er það áfall fyrir fólk að sjá stjórn flokksins verða sér til skammar. Heldur er annað áfall og kannski sínu verra að sjá hvernig er ómaklega vegið að hinum almenna flokksmanni í uppgjöri við þetta mál. Engin maður í neinum flokki eða hópi fólks er mikilvægari en heildin. Hvorki staða þeirra, ris þeirra, né fall.
EKKERT VEGANESTI ER VERRA EN OFDRYKKJA ÖLS
Nú hafa sumir Klausturdrengjanna komið fram og lýst því að þeir muni hreinlega illa eftir umræddu kvöldi. Þeir kenna áfenginu um hegðunina. Það er skýring sem er trúverðug. En sem afsökun er aðeins hægt að nota hana einu sinni. Því ef menn verða uppvísir af því að ráða ekki við drykkju sína, þá er það ábyrgð viðkomandi að taka á drykkjuvandanum. Mín tilfinning og orðið á götunni er að Klausturdrengir hafi ekki verið að hittast í fyrsta sinn á þessum stað og í sömu erindagjörðum. Ljóst er að dómgreindarbresturinn varð því löngu áður en þetta atvik kom upp sem náðist á myndband.
Bakkus getur verið mörgum erfiður förunautur í lífinu. Því miður þurfa margir að gera stóra skandala áður en þeir taka sig taki. Það má þó hugga sig við það í tilfelli þessara ólukkulegu félaga að það dó enginn. En traust til þeirra sem þingmanna er algjörlega horfið. Enda tókst þeim að tala niður til nærri allra minnihlutahópa sem til eru í þessari einu samsetu. Það er vandséð að traust til þessara manna til að setja almenningi lög muni koma til baka í bráð.
HVER KRÍSA ER TÆKIFÆRI
En ég finn til með þessu fólki. Ég er ekki illgjarn maður að eðlisfari. Ég get vart ímyndað mér þá sálarkrísu sem þeir eru að fara í gegnum meðan ég skrifa þessi orð á tölvuna mína. Þetta er bara mannlegur harmleikur. Ég myndi rétta þessum mönnum hjálparhönd ef ég gæti til að losna undan þjáningum sínum. En rétta leiðin til þess er ekki meðvirkni með hegðuninni, heldur fordæming. Þeim finnst etv. erfitt að sjá það á þeim stað sem þeir eru nú að besta hjálpin er að fordæma hegðunina.
Ég fordæmi ekki mennina. Hegðun getur verið góð eða slæm. En fólk er í hjarta sínu oftast gott. Ég vona að menn sjái þetta ekki sem endalok á sinni sögu, þó svo að þetta verði líklega endalokin á pólitíska ferli sumra. Ég vona að menn líti á þetta sem upphafið á betri tímum og nýju tækifæri. Upphafið á nýju lífi án áfengis. Sumir þessara stráka eru afburðar klárir einstaklingar og gætu áorkað svo miklu meiru ef þeir væru ekki með Bakkus í eftirdragi. Það er þungur baggi að draga í gegnum lífið. Líka fyrir þá sem hafa marga góða mannkosti. Það er mín einlæga von að þessir menn komist undan því svartnætti sem nú hylur þá og sjái að nýjar dyr opnast.
MEÐVIRKNI OG ÞÖGULT SAMÞYKKI
Ég er ekki viss um að allir sem sátu við Klausturborðið eigi við alveg sérstakan áfengisvanda að stríða. Það geta menn sjálfsagt best metið sjálfir. En við hina sem sátu þarna vil ég segja að það felst ákveðið samþykki í því að sitja þegjandi hjá þar sem menn stunda orðaníð. Það getur verið auðvelt að detta í meðvirknigírinn þegar maður situr með vini sínum sem kann sér ekki hóf í drykkju eða skapi. Það er auðveldara að horfa fram hjá hegðun sem maður myndi ekki horfa fram hjá ef það væri einhver ókunnugur. Sérlega ef menn eru búnir að stunda slíkt samsæti í einhvern tíma, þá verða menn smám saman samdauna þessu framferði. Hegðunin ágerist svo með tímanum þegar traustið eykst milli aðila. Samþykkið sem felst í þögninni eða jafnvel einstaka viðhlátri fer að virka sem hvatning um að ganga lengra. Þetta mynstur slæmrar hegðunar og samþykkis vindur upp á sig. Þetta gæti jafnvel orðið að einhverskonar keppni í að ganga lengra og vera með hættulegri brandara og grín heldur en samkeppnisaðilar, ef einhverjir samkeppnisaðilar í dólgslegri hegðun eru í samkundunni.
VIÐHLÆJENDUR OG VINIR
Ábyrgð viðhlæjenda er að þeir eiga að segja eitthvað. Ef ekki strax, þá kannski daginn eftir. Ábyrgð þeirra er líka að mæta ekki í þessi samsæti vitandi að þar muni lausmæltar tungur fara hamförum. Svona hegðun er eitruð fyrir þá sem á það hlusta. Það er etv. fyndið og spennandi á stundum að tala óvarlega. Svo er hlátur oft eðlileg varnarviðbrögð sumra við óvæntum uppákomum, svo sem þegar einhver segir eitthvað óvarlegt og óvænt. Þó menn hlæji stundum þegar umræða er komin úr böndunum þá er það oft innantómur hlátur sem skilur eftir sig vonda tilfinningu og sendir út röng skilaboð um samþykki. Til lengdar er þetta eitrað andrúmsloft sem skaðar alla sem taka þátt í því. Menn eiga að hafa kjark til að segja nei við slíkum aðstæðum. Vinir segja vinum líka hvenær þeir eru að haga sér eins og hálfvitar. Vinur er sá er vamms segir.
FRAMHALDIÐ OG FLOKKURINN
Ég vona innilega að þeir félagar sem höfðu sig mest í frami á Klausturbarnum segi af sér þingmennsku og leiti á önnur mið. Ég óska þeim alls hins besta við það. Viðhlæjendur á barnum mættu líka íhuga sína stöðu vandlega. Taka sér etv. leyfi í bili til að horfa inn á við. Kannski er þeim nóg að láta áfengið eiga sig í framtíðinni svo þeim verði ekki á sá dómgreindarskortur að sitja við slíkar samkomur aftur í framtíðinni.
Miðflokkurinn er stærri en þessi krísa. Miðflokkurinn og það hugsjónarfólk sem þar starfar ætti ekki að þurfa að hætta sínu samstarfi þó að forysta flokksins hafi misstigið sig hrapalega. Ég vona að þau stígi til hliðar, sum tímabundið, en önnur líklega varanlega. Tækifærin í hverri krísu eru að læra af reynslunni. Það tækifæri má aldrei glatast.
Höfundur er rafeindavirki og formaður Miðflokksfélags Reykjavíkur.